133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

niðurskurður á framlagi til verknáms.

[13:39]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Vinna við fjárlagagerðina stendur yfir. Eitt af þeim verkefnum sem fjárlaganefnd hefur undir höndum er að skoða þær breytingar sem gerðar hafa verið á reiknilíkani framhaldsskólanna. Þar er um mjög stórt mál að ræða og mikilvægt að nefndarmenn í fjárlaganefnd og menntamálanefnd séu vel að sér um þær breytingar sem gera þarf. Þess vegna var fundað sameiginlega í fjárlaganefnd og menntamálanefnd í morgun með fulltrúum menntamálaráðuneytisins til að menn gætu gert sér glögga mynd af þeim breytingum sem þar eiga sér stað. Þetta er gert í góðri samvinnu við hæstv. ráðherra og ráðuneytið. Í raun stendur sú vinna yfir núna og ég tel litla ástæðu til að taka þetta mál upp með þessum hætti í þingsal meðan reynt er að leysa málið á þverpólitískum vettvangi í þingnefnd. En hver verður að hafa sinn hátt á því.

Ég vil minna á í þessu sambandi að við höfum nýlega samþykkt stefnumótandi byggðaáætlun til fjögurra ára þar sem kveðið er á um nýja forgangsröðun. Þar er fyrsti punkturinn hækkun menntunarstigs á landsbyggðinni og öflugri menntastofnanir. Ef stefnumótandi byggðaáætlun til fjögurra ára á að hafa einhverja þýðingu þá er ljóst að þess verður að sjást stað í fjárlögum viðkomandi árs. Við höfum samþykkt stefnumótandi byggðaáætlun, allir flokkar, og það er mikilvægt að þær áherslur endurspeglist í fjárveitingum.

Ég legg áherslu á að í þeirri vinnu sem fram undan er innan fjárlaganefndar höfum við þá byggðaáætlun sem nú er í gildi til hliðsjónar. Það er unnið að þessu máli í mjög góðu samstarfi við hæstv. menntamálaráðherra og ráðuneyti hennar og mikilvægt að við náum góðri lendingu í því.