133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

niðurskurður á framlagi til verknáms.

[13:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Engum þarf að koma á óvart þó menn sýni viðbrögð við þeirri stefnumótun sem birtist í fjárlagafrumvarpinu. Hún er á skjön við það sem við lögðum upp með sameiginlega. Ég held að byggðaáætlun hafi verið samþykkt samhljóða í þinginu þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Á gildistíma byggðaáætlunar skulu stjórnvöld hafa þrjú meginatriði að leiðarljósi:

a. Að stórefla menntun á landsbyggðinni.

b. Að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni.“ — Og svo framvegis.

Því miður er ekki hægt að sjá það á markmiðum menntamálaráðuneytisins í þessum málum að það hafi tekið mið af byggðaáætlun sem þingheimur var sammála um að leggja áherslu á. Þess vegna er ekki undarlegt að fram komi í bréfi kennaranna til okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis, með leyfi forseta:

„Á sama tíma og eftirspurn eftir iðnmenntuðu fólki hefur aukist er kreppt að skólum með þessum aðgerðum. Nú langar okkur undirritaða að spyrja ykkur þingmenn þessa kjördæmis hvernig geti staðið á þessari vitleysu.“

Það er ekkert skrýtið þó svona sé spurt þegar stefnumörkunin liggur fyrir. Það verður að segjast eins og er að okkur sem erum í fjárlaganefnd kom á óvart að þessi staða skyldi koma upp í fjárlagafrumvarpinu. Ég trúi því og treysti að menn séu sammála um það í fjárlaganefnd að taka á þessu vandamáli. Sá fundur sem var í morgun var m.a. til að upplýsa það. Ég held að menn hljóti að reyna að sameinast um að snúa ofan af þessu máli eins og það liggur fyrir núna.