133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:29]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er dásamlegt að hlusta á stjórnarþingmenn núna vera svona sammála um að þetta hefði þurft að vera allt öðruvísi. Hér eru stjórnarþingmenn búnir að vera við stjórnvölinn, sjálfstæðismenn í 16 ár og framsóknarmenn í 12 ár. Samt er þetta enn þá svona. Samt er enn þá þetta gamaldagskerfi, enn þá getur fólk á hjúkrunarheimilunum ekki valið hvaða þjónustu það fær. Það eru tekin af fólki fjárráð þegar það er búið að missa heilsuna, fer inn á hjúkrunarheimilin o.s.frv.

Hvernig stendur á því að þetta hefur verið látið drabbast svona mikið niður? Þetta á auðvitað ekki að líðast. Ég segi hér að ég vona að þetta verði til þess að við breytum þessu. Ég er þeirrar skoðunar að hér þurfi að koma ný ríkisstjórn með fólki með ný viðhorf þannig að þetta verði raunverulega þannig að við náum þó Norðurlandaþjóðunum í því að vera með fjölbreytta, góða og markvissa þjónustu fyrir aldraða sem eru á hjúkrunarheimilum eða þurfa hjúkrun.

Ég verð t.d. að segja að ég hefði haldið að á Sóltúnsheimilinu væru þessar litlu einingar mjög fín úrræði fyrir þá sem eru mikið veikir og þurfa þjónustu en hafa samt sitt einkaheimili inni á stofnun. Ég efast ekki um að það sé einmitt það sem Hrafnista stefnir að. Ég veit til þess að í nágrenni við Sóltún hafa eldri borgarar óskað eftir að fá svona þjónustumiðstöð þannig að það væri hægt að þjóna þeim inni á heimili í nágrenninu. Auðvitað þurfum við að horfa á alla þessa þætti. Við gætum auðvitað talað um þessi mál öll lengi, í allan dag. Þetta er þannig málaflokkur og það er svo margt ógert. Því miður hefur svo mikið drabbast niður, dregist aftur úr eða kannski verið hægari uppbygging en ella vegna þess að þessir peningar úr framkvæmdasjóðnum skiluðu sér ekki í uppbyggingu. Sú uppbygging verður að vera fjölbreytt.