133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:44]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör en ítreka jafnframt að það skal gæta jafnræðis í þessu milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar eins og í svo mörgu öðru. Það er hárrétt að mörg rými úti á landi eru gömul og þarfnast endurbóta. Við vitum það auðvitað sem störfum í þessum landsbyggðarkjördæmum að þar er þörfin brýn og þar er mikið pressað á að lagfæra en fé hefur ekki verið veitt til þess mörg undanfarin ár.

Mér er það minnisstætt þegar þingflokkur Samfylkingarinnar var í heimsókn á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fyrir nokkrum mánuðum að við fengum þær upplýsingar að þar lægju inni 120–130 fullorðnir einstaklingar sem annars ættu að vistast á hjúkrunarrýmum eða dvalarheimilum úti í bæ. Ástæðan fyrir því að það var ekki hægt var ekki sú að það vantaði pláss. Það var svo merkilegt þar sem við erum að ræða núna um að það vanti pláss. Það vantar ekki pláss fyrir þá einstaklinga á dvalar- eða hjúkrunarheimilum sem við erum að tala um heldur vantar starfsfólk til að sinna þeim fjölda sem hægt er að leggja inn á heimilin.

Hvers vegna vantaði starfsmenn? Jú, vegna þess sem hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu, að það fólk sem sinnir þessu mikilvæga starfi er svo illa launað að það hverfur úr því.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Væri ekki ástæða til að fara betur í gegnum þennan þátt eins og við höfum orðið vör við í hetjulegri baráttu þessa fólks sem var hér fyrir nokkrum missirum síðan, að lagfæra þetta þannig að aftur verði eftirsóknarvert fyrir fólk sem vill leggja þessa mikilvægu vinnu fram og tryggja að það hafi þokkalegt lífsviðurværi úr því? Þannig nýttum við þau pláss sem eru ónýtt í dag í staðinn fyrir að (Forseti hringir.) láta fólk liggja inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi eða hátæknispítölum.