133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:46]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér var talað um jafnræði varðandi hjúkrunarrými. Ég tel að jafnræðis hafi ekki verið gætt gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Þar eru biðlistarnir og þar er mesta þörfin fyrir ný rými. Ef eitthvað er hefur landsbyggðin fengið hlutfallslega fleiri rými en höfuðborgarsvæðið en það þarf að laga mörg rými þar og í það verður sett fjármagn. Hluti af því fjármagni kemur einmitt út úr samkomulaginu sem gert var við eldri borgara í sumar.

Varðandi LSH þá voru í upphafi sumars um 80 manns þar inni sem spítalinn taldi að ætti að útskrifa, þ.e. eldri borgarar sem vantaði önnur úrræði fyrir, og þetta er mikill útskriftarvandi eins og við höfum kallað hann. Sú tala er nú komin niður í 50–60 einstaklinga eða lægra. Það var haft var samband við heimilin og þau hvött til að taka hærra hlutfall beint af LSH og minnka það hlutfall sem tekið var utan úr bæ og það hefur verið gert. Það eru reyndar tvö heimili sem alltaf taka 90% frá LSH, þ.e. Vífilsstaðir og Sóltún, en önnur hafa tekið minna og sum frekar lítið. En nú hefur það hlutfall verið hækkað þannig að heimilin hafa brugðist vel við þessu og þar með léttir á LSH.

Nú er líka farið að nota nýtt úrræði sem er sérhæfð heimaþjónusta en þá útvegar sjúkrahúsið heimaþjónustu, heimahjúkrun og meiri þjónustu fyrir aldraða. Þeir eru útskrifaðir heim með mikla þjónustu. Ef fólkið getur verið heima í a.m.k. þrjá mánuði eða lengur færist þjónustan yfir á heilsugæslustöðvarnar þar sem slík þjónusta er almennt í kerfinu, þ.e. heimahjúkrunin. Þetta er algjörlega nýtt úrræði en á næstu dögum munu þó nokkrir einstaklingar nýta sér það.