133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[16:05]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu andsvari um það frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu sem hæstv. ráðherra mælti hér fyrir og gat um í lok ræðu sinnar að væri allmikil og góð pólitísk sátt um, vil ég segja að auðvitað vona ég að svo sé og verði. Mér sýnist vera margt mjög jákvætt í því og segi kannski svolítið um það hvernig þetta er rekið í dag.

Mér er kunnugt um að þegar fyrstu frumvarpsdrögin voru send út í upphafi þessa árs voru líka send út drög að reglugerð til þeirra sem þau fengu. Það er ánægjulegt að fram kemur að 101 aðili sendi inn umsögn og það kemur líka fram að töluvert hafi verið orðið við þeim. En andsvar mitt lýtur að 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um heilbrigðisumdæmin. Þessi grein er mjög víðtæk þannig að ráðherra getur nánast tekið hvaða heilbrigðisstofnanir sem er og sameinað þær án tillits til ýmissa þátta sem maður vildi sjá í því. Spurning mín til hæstv. ráðherra er því sú: Hvers vegna fylgja þessi drög að reglugerð ekki hér með þannig að við þingmenn getum séð þetta strax og hyggst ráðherra fara þá leið að sameina heilbrigðisstofnanir eitthvað í takt við það sem kvisast hefur út og verið rætt um, eins og t.d. á Norðurlandi allt frá Blönduósi austur á Þórshöfn?

Það er mjög mikilvægt að heyra hverjar hugmyndir hæstv. ráðherra eru í þessum efnum við 1. umr. málsins sem verður svo auðvitað tekið til meðferðar í heilbrigðis- og trygginganefnd sem ég á sæti í.

Mig langaði að spyrja um þetta og heyra svar ráðherra við því, virðulegi forseti.