133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[16:10]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég tók eftir því að hún taldi að þessi hugmynd að reglugerð ætti ekki erindi til okkar, til að æsa upp lýðinn ef svo má að orði komast, æsa okkur þingmenn upp hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Það má enginn skilja orð mín svo að ég sé á móti sameiningu heilbrigðisstofnana ef það er gert á þeim grunni að ekki sé eingöngu verið að spara fé og sameina sameiningarinnar vegna. Það verður auðvitað að vera einhver merkilegur og góður tilgangur með slíkri sameiningu þannig að það verði aukin og fjölbreyttari þjónusta sem kemur út úr því. Það er ekki eingöngu hægt að horfa á þetta sem stofnanir á blaði heilbrigðisráðuneytisins eða í fjárlögum og gera þetta þannig, landafræðin og landakortið verður að sjálfsögðu líka að vera þar með.

Ég fagna því sem hér kom fram hjá hæstv. ráðherra en ég mun kalla eftir því í heilbrigðis- og trygginganefnd að hugmynd að þessari reglugerð komi fram þar svo menn geti séð hana. Ég vænti þess líka og vona að heilbrigðisráðherra lýsi því yfir að ekki sé ætlunin, í framhaldi af þessu, að fara í hraðvirkar sameiningartilraunir án þess að þeir þættir verði hafðir að leiðarljósi sem ég gerði að umtalsefni rétt áðan.

Virðulegi forseti. Það er örstutt eftir af andsvari mínu og það er annað sem snýr að reglugerðum í frumvarpinu en á mjög mörgum stöðum er kveðið á um að ráðherra setji frekari reglur um þetta og hitt og að kveðið verði á um þetta í reglugerð o.s.frv. Spurning mín til hæstv. ráðherra er um það sem ég held að sé dæmi um góða stjórnsýslu: Eru til drög að öllum þessum reglugerðum og munum við í (Forseti hringir.) heilbrigðis- og trygginganefnd fá að sjá þau drög?