133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[16:12]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki alveg svarað þessu með reglugerðardrögin, hvort þau eru til á öllum sviðum, en það verður hægt að fara yfir það í heilbrigðisnefnd.

Hvað varðar reglugerðina sem unnin var á sínum tíma eða drögin, þá held ég að hún sé á netinu þannig að hv. þingmaður getur nálgast hana. Hún er búin að fara um allt heilbrigðisþjónustukerfið og allir vita hvernig hún lítur út. En sú reglugerð er ekki að verða að veruleika. Það er búið að breyta frumvarpinu þannig að verið er að fara frá þessari reglugerð ef eitthvað er, frekar en nær henni. Auðvitað munu menn geta sameinað stofnanir í framtíðinni ef það þykir skynsamlegt en frumvarpið kallar ekki á það eins og það gerði. Núna skal ekki vera ein heilbrigðisstofnun í heilbrigðisumdæmi, þær geta verið margar. Við gætum því verið með heilbrigðisumdæmi Norðausturlands eða Norðvesturlands þar sem væru óbreyttar stofnanir eða eins og þær eru í dag en þær ættu þá að hafa samráð og samstarf sín á milli. Við erum samt ekki að búa til einhvers konar þriðja stjórnsýslustig, þetta á ekki að vera flókið og þungt samstarf. Þetta á að vera eðlilegt samstarf.

Eins og staðan er núna eru ekki áætlanir uppi um sameiningu heilbrigðisstofnana. Hins vegar hefur sameiningin að mínu mati og margra annarra, ekki allra en margra, tekist vel á Suðurlandi og Austurlandi. Það eru ekki allir sammála því en ég tel að hún hafi tekist vel. Maður heyrir ekki raddir uppi um að kljúfa ætti heilbrigðisstofnun Suðurlands eða heilbrigðisstofnun Austurlands upp í minni einingar.

Menn sameina til að bæta þjónustuna. Þeir aðilar sem vinna við þessa þjónustu eru sérhæfðir, þetta er dýr starfskraftur og mikilvægur. Maður heyrir líka að þeir vilja vinna í stærri stofnunum þar sem meiri sveigjanleiki er í vaktaþjónustu og menn geta farið meira um. Sameiningin á að sjálfsögðu að vera til góðs en það er ekkert sem kallar á sameiningu (Forseti hringir.) samkvæmt frumvarpinu.