133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[16:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekkert að hafa mörg orð um þetta frumvarp á þessu stigi málsins. En nokkur atriði vil ég nefna. Ég vil í fyrsta lagi að mörgu leyti hrósa undirbúningi frumvarpsins. Í þeim starfshóp sem þarna vann sátu fulltrúar allra flokka sem og talsvert samráð var viðhaft í vinnsluferlinu. Það er góðra gjalda vert og þannig mætti oftar standa að málum. Ég tala nú ekki um þegar um mikilvæga viðkvæma þjónustu af þessu tagi er að ræða. Það er líka fagnaðarefni að í aðalatriðum er sæmileg sátt um tillögur nefndarinnar sem frumvarpið byggir í grunninn á. Reyndar er ekki hér um að ræða mikla stefnubreytingu. Ef maður les þetta frumvarp og ber það saman við gildandi lög þá er ekki í neinum veigamiklum mæli verið að hverfa frá þeirri stefnu sem þar hefur verið. En það ber að hafa í huga að á þeim lögum höfðu orðið nokkuð umdeildar breytingar á undangengnum árum, til dæmis sem varða stjórnsýslu og fyrirkomulag á þessu sviði. Þar á ég til dæmis við það þegar lagðar voru af stjórnir heilsugæslustöðva og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Það sem ég vil í fyrsta lagi nefna hér sérstaklega er skipulag heilbrigðisumdæmanna og ákvæði 5. gr. og annað sem því viðkemur. Þar er gert ráð fyrir að landinu sé skipt í heilbrigðisumdæmi og að um þá skiptingu fari samkvæmt reglugerð. Með öðrum orðum er ráðherra veitt þarna mjög mikið vald til að ákveða skipulag heilbrigðisþjónustunnar að þessu leyti.

Síðan er heilbrigðisþjónustan greinilega þannig hugsuð í framhaldinu að þjónustustigið eða starfsemin á viðkomandi sviði er skoðuð út frá umdæmunum. Með öðrum orðum, fyrst getur ráðherra með reglugerð breytt umdæmunum, stækkað þau að vild og síðan er sagt: Tiltekna, almenna grunnþjónustu ber að veita innan hvers heilbrigðisumdæmis. En þar með er svigrúmið orðið gríðarlega mikið til þess að ákveða í hvaða byggðarlögum eða hvar innan viðkomandi svæða þjónustan verði veitt. Í raun hefur því sá ráðherra sem það vill meira og minna algerlega í hendi sér að ákveða hvernig þjónustan að þessu leyti væri byggð upp.

Þetta má segja reyndar um ákvæði þessa frumvarps í fleiri tilvikum, þ.e. að hér er um að ræða tiltölulega almennt orðaða rammalöggjöf sem felur framkvæmdarvaldinu geysilegt svigrúm til þess að ákveða, þ.e. í fyrsta lagi skilgreina þjónustuna, í öðru lagi ákveða umfang heilbrigðisumdæmanna og í þriðja lagi hvaða þjónusta eða hvernig þjónustan er veitt innan viðkomandi heilbrigðisumdæmis.

Þetta leiðir eðlilega til þess að talsmenn ýmissa minni byggðarlaga eru mjög áhyggjufullir um sinn hlut því þeir vita að svo getur farið að innan ramma þessa svigrúms komi til mikilla breytinga ef svo ber undir. Nú er ég ekki endilega að segja að slíkar áætlanir séu uppi en augljóslega býður fyrirkomulagið upp á vangaveltur um þetta. Því var það að sumir urðu mjög langleitir, að sagt er, þegar drög að reglugerð fylgdu með frumvarpinu til kynningar og varð eitthvað hljóðbært hér og þar í landinu.

Ég held að til þess að hafa sem besta samstöðu um þessi mál og til að fyrirbyggja tortryggni sem vonandi er ástæðulaus þá verði í staðinn — ef frágangur mála er þessi í lögum — að gera þær kröfur að fyrir liggi á hverjum tíma með mjög skýrum hætti markmið stjórnvalda um heilbrigðisþjónustuna, hvernig þjónustustigið er skilgreint og hvernig það skuli veita lárétt landfræðilega og síðan aftur lóðrétt milli stofnana. Gera verður þá kröfu því annars er þetta allt saman svífandi og í allt of lausu lofti. Það er ómögulegt fyrir forstöðumenn, fyrir starfsemi, hvort sem það er sjálfstæð stofnun eða eining innan stærri heildar, að vita aldrei almennilega ár frá ári hvað þeim er ætlað að gera, hvaða heimildir þeir hafa til þess og svo framvegis.

Um stækkun eða sameiningu heilbrigðisumdæma og stofnana í stærri einingar vil ég segja að ég held að að mörgu leyti hafi ágætir hlutir gerst þar hvað það varðar að faglega og hvað varðar stjórnsýslu hafi þetta víða tekist ágætlega. Ég nefni bara það dæmi sem ég þekki best, þ.e. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og út af fyrir sig mætti nefna líka Heilbrigðisstofnun Austurlands. En hitt er alveg ljóst að þetta hefur ekki orðið þessari starfsemi til þess styrktar rekstrarlega sem menn vonuðust til. Mönnum finnst jafnvel að þeir hafi verið neyddir til þess í gegnum þessa stækkun og sameiningu að fara samtímis í kostnaðarfullar hagræðingaraðgerðir.

Ég man nú þá tíð að hver og ein heilsugæslustöð á þessum svæðum var sjálfstæð eining með sjálfstæðri stjórn og sjálfstæðu fjárlaganúmeri. Síðan til dæmis sameinuðust heilsugæslustöðvarnar í Norður-Þingeyjarsýslu fyrst, þrjár í eina. Það var að mörgu leyti góð aðgerð því það gaf færi á að ráða framkvæmdastjóra fyrir þá starfsemi í fullt starf. Það gerði auðveldara um vik að læknar skiptust á og væru á bakvakt hver fyrir annan og svo framvegis. Síðan varð úr þessu sameining starfseminnar í Norður-Þingeyjarsýslu við starfsemina í Suður-Þingeyjarsýslu og þar varð til Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sem að mörgu leyti er ágæt eining vegna þess að þar er um að ræða heilsugæslustöðvar og sjúkrahús með legudeildum á Húsavík.

Ég spyr mig hins vegar: Hvaða tilgangi mundi sameining slíkrar einingar við aðrar nokkurn veginn hliðstæðar þjóna? Það er algerlega lárétt sameining, ef menn skilja hvað ég er að fara. Ég hef efasemdir um að það mundi í sjálfu sér skila neinni sérstakri hagræðingu. Það er bara verið að stækka eininguna gríðarlega og gera jafnvel flóknari viðfangsefni sem lúta þá að því að skilgreina þjónustuna, hvar hún skuli veitt og hvernig innan afmarkaðs landfræðilegs svæðis eða búsetusvæðis. Ég bara endurtek það að þetta snýst um að skilgreina þjónustuna og að hún verði ekki gengisfelld í gegnum það svigrúm sem búið er til með þessum hætti ef svo bæri undir.

Alveg sama má segja um annan þátt þessa máls sem er svigrúm ráðherra til að semja um rekstur og form á þjónustunni á öðrum grunni en þeim að hún sé veitt með hefðbundnum hætti af hinu opinbera. Það kann vel að vera að sé eðlilegt eða óumflýjanlegt að eitthvert slíkt svigrúm sé til staðar. En það ræðst allt af því hvernig með það er farið hvaða pólitík, hvaða stefna gildir hverju sinni. Það er að mínu mati ekki gott að þessu sé svipt fram og til baka eftir því hvaða persónuleg viðhorf viðkomandi ráðherra hefur á hverjum tíma. Þá er spurning: Er ekki búið að ganga of langt í þá átt að hafa hér bara rammalöggjöf með gríðarlegu framsali til ráðherrans í formi framkvæmdar eða í formi reglugerðarútgáfu, en það er það sem þarna er á ferðinni.

Ég vil nefna aðeins háskólasjúkrahúsin eða háskólasjúkrahúsið og kennslusjúkrahúsið eins og það er hér samkvæmt þessum lögum. Ég ætla ekkert að útiloka að þetta geti verið eðlilegur eða sanngjarn framgangur málsins. Ég spyr mig þó: Er eitthvað að því að þarna sé bara gengið frá málum þannig að hér á landi séu tvö háskólasjúkrahús? Það er þannig að kennsla á háskólastigi í heilbrigðismálum fer fram á tveimur stöðum, við Landspítala – Háskólasjúkrahús og á Akureyri. Ég sé ekki endilega að það þurfi að aðgreina þau með þessum hætti þó það kunni að vera styrkur að því út af fyrir sig svo langt sem það nær fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri að fá þarna lagalega viðurkenningu, má segja, í þessu nafni á þeirri heilbrigðiskennslu sem þar er og starfsemi á því sviði. En þá þarf líka að svara því hvað felst í því. Felur það í sér til dæmis að kennslusjúkrahús, í skilningnum kennsla á háskólastigi í heilbrigðisgreinum, opni möguleika á stöðu prófessora, rannsóknastarfsemi, akademískri starfsemi af því tagi? Ef ekki, af hverju ekki? Ef svo væri, má þá bara ekki kalla hlutina réttum nöfnum og kalla FSA háskólasjúkrahús bara með minna umfangi heldur en Landspítalinn? Ég sé ekki alveg rökin fyrir þessari aðgreiningu en hafna henni svo sem ekki fyrir fram áður en ég hef heyrt þetta útlistað.

Ég ætlaði einnig að nefna stjórnsýsluþáttinn, hvað varðar einfaldlega starfsmannalýðræði og aðgang heimamanna. Ég var ekki hrifinn af þeirri breytingu sem farið var út í á sínum tíma, að slá af stjórnir heilbrigðisstofnananna eða heilsugæslustöðvanna. Mér fannst eftirsjá að því að heimamenn ættu aðild að þessum þáttum og starfsmenn. Það er dapurlegt að í íslenskri löggjöf hefur allt sem hægt er að kalla starfsmannalýðræði verið á hraðri útleið. Það er búið að fella slíka hluti niður í lögum þar sem voru þó vísar að þeim á einstökum sviðum, eins og innan heilbrigðisgeirans. Þessi þjónusta verður ekki veitt, þessari starfsemi verður ekki haldið uppi nema með góðum starfsmönnum og að vinnuandrúmsloft sé gott — nóg er nú samt — er þá ekki gott að starfsmennirnir séu aðilar að þessu þannig að þeir geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri og átt sæti við borðið þar sem ræddir eru praktískir hluti sem snúa að rekstrinum, uppbyggingu og fyrirkomulagi starfsins? Það held ég. Mér finnst því hér ekki endilega verið að fara í skynsamlega átt.

Ég held að það sé nauðsynlegt að hv. þingnefnd fari mjög rækilega ofan í saumana á þeim hlutum sem meðal annars ég hef gert hér að umtalsefni, hafa komið hér einnig fyrir í andsvörum og svörum ráðherra áðan og varða meðal annars framtíðaráformin í þessum efnum. Við skulum bara viðurkenna að það myndaðist þó nokkur tortryggni í garð þeirra áforma sem hér væru á bak við. Það er verk að vinna að henni og eyða. Hæstv. ráðherra viðurkenndi það og gaf þá skýringu að þess vegna hefðu áformin samkvæmt reglugerðardrögunum verið slegin af. En þá held ég að líka þyrfti að fá svör við því hver sé þá stefnan ef svo er. Eru menn þá að gera ráð fyrir í aðalatriðum óbreyttu skipulagi, óbreyttu umfangi heilbrigðisumdæmanna til næstu ára? Annað væri náttúrlega fráleitt þegar menn fara hér í gegn með heildarendurskoðun á löggjöf en að þeir horfðu þá til einhvers tíma. Menn eru vonandi ekki bara að redda sér hér í gegnum kosningaár af því þeir hafa óttast að breytingar gætu orðið óvinsælar og ætla að taka það svo upp úr pússi sínu ef þeir verða í aðstöðu til í júnímánuði næstkomandi. Nei. Við skulum þá vona að menn séu af heilum hug og í alvöru að horfa á hlutina með eitthvað öðrum augum og það eigi sem sagt að hugsa þetta skipulag til einhverra ára í tengslum við endurskoðun löggjafarinnar.

Við þessu þurfa að fást skýr svör. Það er hlutverk þingnefndarinnar að fara ofan í saumana á þessum hlutum og vonandi sjáum við, til dæmis í formi nefndarálits og upplýsinga sem þar kæmu fram, nákvæmlega hvernig þessir hlutir eru hugsaðir til næstu framtíðar, þ.e. hvernig menn ætli að nálgast skilgreiningu á umfangi og gæðum þjónustunnar og hvernig hún verður veitt í einstökum atriðum, á einstökum svæðum og í einstökum byggðarlögum.