133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[16:27]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða hér frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu, frumvarp sem var undirbúið af nefnd sem í sátu fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum og ýmsum öðrum. Þetta er, eins og komið hefur fram í umræðunni, viðamikið plagg sem heilbrigðis- og trygginganefnd mun auðvitað fá til umfjöllunar. Það er alveg ljóst að það verður heilmikil vinna fyrir nefndina að fara yfir þetta frumvarp til laga.

Ég hef ákveðið að tala hér sem þingmaður Reykvíkinga. Ég tel orðið tímabært að hér verði komið með sjónarhorn Reykvíkinga inn í þessa umræðu. (Gripið fram í: … prófkjörs …?) Ég hef alltaf talað sem þingmaður Reykvíkinga. (Gripið fram í: … þingmaður alls landsins?) Jú, en sérstaklega þarf að tala um Reykjavík hér vegna þess að á sama tíma og lögð er fram heildstæð löggjöf um heilbrigðisþjónustu er hér mikil aðför að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. En hún er, eins og kannski margir þekkja, stofnun sem er yfir öllu svæðinu, þ.e. Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Mosfellsbæ og auðvitað Reykjavík. Hún hóf starfsemi sína fyrir tæpu ári, þ.e. 1. janúar 2006, og þegar hún hóf starfsemi var búið að selja undan henni húsnæðið sem var Heilsuverndarstöðin í Reykjavík, fínt húsnæði sem var byggt sérstaklega sem húsnæði fyrir heilbrigðisþjónustu. Þegar húsnæðið var selt var ekki búið að kanna hverjar þarfirnar væru fyrir heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Engin þarfagreining hafði farið fram.

Þarna erum við að fjalla um þriðju stærstu opinberu stofnunina á landinu. Ef við horfum til fjölda starfsmanna eru þar 700 starfsmenn og undir stofnunina heyra 15 heilsugæslustöðvar. Það var ekkert hugsað um það hvernig þessi framtíðarstofnun ætti að vera með tengsl við t.d. hið nýja þekkingarþorp sem snýr að háskólanum og Landspítalanum. Ítrekað var bent á það þegar Heilsuverndarstöðin var seld að þetta mundi setja starfsemina sem þar var í uppnám, sérstaklega þjónustuna við þungaðar konur sem eru í áhættuhópi eða konur með meðgönguvanda eins og það er kallað. Sömuleiðis höfðu menn áhyggjur af því að framtíð Miðstöðvar heilsuverndar barna væri í uppnámi við þá breytingu sem varð þarna vegna þess að menn óttuðust atgervisflótta frá þeirri stofnun.

Starfsmennirnir fengu mjög stuttan tíma til umþóttunar, einn eða tvo daga, til að leggja fram tillögur um húsnæðisþörf þeirrar starfsemi sem var í Heilsuverndarstöðinni. Það verður eiginlega að segjast sem er að þetta eru mjög ámælisverð vinnubrögð þegar um er að ræða svo mikilvæga starfsemi sem er og var í Heilsuverndarstöðinni. Það er ekki gæfulegt til framtíðar þegar maður sér hvernig staðið var að þessum málum.

Síðan er auglýst eftir húsnæði. Það er ákveðið að taka á leigu húsnæði í Mjóddinni sem var alveg í útkanti þess svæðis sem menn miðuðu við að hafa þessa þjónustu. Síðan kom í ljós að þetta húsnæði hentaði alls ekki fyrir þá starfsemi (Gripið fram í.) sem þarf nú að fara fram, inni í miðri verslunarmiðstöð. Ég verð að benda á að það er mjög erfitt fyrir marga sjúklinga að leita að heilbrigðisþjónustu inni í verslunarmiðstöð. Bæði þunglyndissjúklingar og margir aðrir sjúklingahópar eiga erfitt með að þurfa að leita þjónustu inni í verslunarmiðstöð.

Það er alveg ljóst að þetta fyrirkomulag allt saman mun gera það að verkum að öll sú starfsemi sem var í Heilsuverndarstöðinni mun tvístrast. Það er verið að setja lungna- og berkladeildina í bráðabirgðahúsnæði í Glæsibæ. Það eru líka hugmyndir um að atvinnusjúkdómadeildin fari þangað. Nú er ljóst í framhaldi af þessu, á sama tíma og við erum að ræða hér framtíðarskipan heilbrigðismála, að Miðstöð mæðraverndar verður lögð niður í núverandi mynd. Hún átti að deila heilli hæð með Miðstöð heilsuverndar barna og hafa sameiginlega móttöku. Það er búið að fara út í mikinn kostnað við breytingar á þessu húsnæði fyrir t.d. Miðstöð mæðraverndarinnar en nú er ljóst að undirbúningur er hafinn að því að þeim konum sem eiga við meðgönguvanda að stríða verði þjónað á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, við mjög þröngar aðstæður er mér sagt af þeim sem til þekkja.

Þetta gerist mánuði áður en á að fara að flytja þessa starfsemi í verslunarmiðstöðina í úthverfi borgarinnar. Þá er það eiginlega þannig að í raun er Miðstöð mæðraverndar lögð niður og þarna í Mjóddinni, í Þönglabakkanum, er tómt húsnæði. Ég velti fyrir mér hvað svona ráðslag kosti skattborgara. Við áttum fínt húsnæði í Heilsuverndarstöðinni en nú er búið að taka á leigu húsnæði hér í verslunarmiðstöð sem þurfti að breyta mikið. Það er búið að setja alla þjónustuna á Heilsuverndarstöðinni í uppnám.

Ég vildi gjarnan fá svör við því hjá hæstv. ráðherra. Ef hún getur ekki svarað því núna mun ég leggja fram formlega fyrirspurn um það: Hvað er þetta ráðslag búið að kosta? Hvað hefur það kostað að láta breyta húsnæðinu í Mjóddinni? Hversu mikið af hagnaðinum við sölu á Heilsuverndarstöðinni hefur farið í þetta? Er einhver afgangur? Hver tekur svona ákvarðanir?

Ég held að ég muni þurfa að leggja fram formlega fyrirspurn til hæstv. ráðherra um þetta. Mér er mjög mikið niðri fyrir vegna þess hvernig staðið hefur verið að þessari aðför að heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Ég vildi gjarnan fá að heyra hjá hæstv. ráðherra, og ég er með fyrirspurn til hennar, ég sé að hún er í símanum hérna frammi: Hver er framtíðarhugsun ráðuneytisins í sambandi við uppbyggingu heilsugæslunnar og tengsl hennar við Háskóla Íslands? Háskólana í landinu yfirleitt því að það er ekki bara Háskóli Íslands, heilsugæslan þyrfti að hafa samskipti við fleiri háskóla eins og t.d. Háskólann í Reykjavík.

Þeir sem standa að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins telja niðurlægingu stofnunarinnar algjöra. Á hátíðarstundum er talað um að heilsugæslan skuli vera grundvöllur og grunnþjónusta allrar heilbrigðisþjónustu. Það var talað um það hér þegar mælt var fyrir þessu frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu að þetta væri til að tryggja þjónustu og gæði heilbrigðisþjónustunnar. Því miður verð ég að segja að á því hvernig stjórnvöld hafa stigið fram gagnvart heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins má greinilega sjá að gæði þjónustunnar eru ekki höfð í fyrirrúmi. Þetta hefur þvert á móti komið verulega niður á allri þeirri þjónustu sem verið hefur í Heilsuverndarstöðinni.

Ég bið hæstv. ráðherra að upplýsa hér um þau atriði sem ég hef spurt um í sambandi við þetta ráðslag allt saman með heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ég spyr: Hefur verið reynt að fá þetta húsnæði í Heilsuverndarstöðinni á leigu eða jafnvel kaupa það til baka? Það er alveg ljóst að ef áfram á að halda á þeirri braut sem nú er farin mun öll þessi þjónusta sem þar var tvístrast og jafnvel leggjast niður að einhverjum hluta eins og þjónustan við konur með meðgönguvanda.

Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig staðið hefur verið að þessum málum og spyr hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hún að taka á þessu máli? Á að láta þessa hluti danka eins og er að gerast núna eða ætlar ráðherrann að taka á þessu þannig að það sé hægt að vinna þessa heilbrigðisþjónustu alla saman á einum stað?

Varðandi annað í þessum lagabálki munum við auðvitað skoða þetta gaumgæfilega og kalla fyrir alla þá sem það mál varðar. Ég tel fulla ástæðu til þess að við köllum til fulltrúa frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þeir upplýsi heilbrigðis- og trygginganefnd um stöðu mála. Þær upplýsingar sem ég hef fengið um þau mál sem ég hef reifað hér eru mjög alvarlegar fyrir höfuðborgarsvæðið allt saman, bæði börnin sem þurfa að treysta á þjónustu Miðstöðvar um heilsuvernd barna, mæðraverndina og aðra þá þjónustu sem að Reykvíkingum snýr og öðrum höfuðborgarbúum.

Af því að ég er farin að vekja máls á þessu atriði vil ég líka nefna að mér finnst það vera orðin sérkennileg vinnubrögð þegar við eigum hús eins og Heilsuverndarstöðina — sem reyndar hefur drabbast niður vegna þess að því hefur ekki verið haldið við sem skyldi en hefði verið hægt að halda við og byggja upp, húsnæði sem var sérstaklega byggt fyrir heilbrigðisþjónustu og ríkið átti — sé það selt. Svo er verið að leigja úti um allan bæ undir þessa þjónustu og ég hef verulegar efasemdir um að það skili nokkrum hagnaði eða neinu nema auknum útgjöldum fyrir almenning og óþægindi. Það er ömurlegt að horfa upp á hvernig þetta er að verða. Ég minni á það aftur að það er erfitt fyrir marga að fara inn í verslunarmiðstöðvar til að leita að heilbrigðisþjónustu, t.d. á margt eldra fólk erfitt með að fara inn á þannig erilsama staði, þunglyndissjúklingar, fatlaðir og ýmsir fleiri.

Ég vil bara vekja sérstaklega athygli á stöðu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á stöðu Miðstöðvar heilsuverndar barna og Miðstöðvar mæðraverndar þar sem allt virðist vera í uppnámi. Mér finnst það verulegt umhugsunarefni þegar við ræðum hér frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu þar sem á að bæta þjónustuna og allt á að vera svo gott og fallegt að svona sé staðan á höfuðborgarsvæðinu í grunnþjónustunni sem á auðvitað að vera til fyrirmyndar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hún gert eitthvað í því að fá aftur Heilsuverndarstöðina? Það er ekki búið að leigja það húsnæði út. Jafnvel kaupa það til baka? Það er greinilega algert ófremdarástand sem blasir við í málefnum Reykvíkinga hvað þetta varðar.