133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:43]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann væri að spyrja um sameiningarnar. Við fjölluðum aðeins um það áðan en ég get alveg endurtekið það af því að þetta er mjög mikilvægt atriði.

Eins og frumvarpið var og kom úr nefndinni þá átti að vera ein heilbrigðisstofnun í hverju heilbrigðisumdæmi og landinu átti að vera skipt í heilbrigðisumdæmi. Þetta ákvæði olli miklum titringi. Nú þegar er búið að sameina í þeim anda á Suðurlandi og Austurlandi. Þetta ákvæði olli miklum titringi, sérstaklega á Norðausturlandi og líka á Vesturlandi og Austfjörðum. Við því hefur verið brugðist þannig að nú stendur í 6. gr. frumvarpsins, með leyfi virðulegs forseta:

„Í hverju heilbrigðisumdæmi skal starfrækt heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu.“

Það er sem sagt opnað á það að fleiri stofnanir séu í umdæmi, þannig að það er ekki sami þrýstingur á um sameiningu stofnana eins og var í fyrra frumvarpi. Það er líka búið að taka inn í 5. gr. að það eigi að hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga áður en menn ganga til einhverra sameininga. Þetta er ekki í núgildandi lögum. Það var í lögunum en var tekið út á sínum tíma. Við erum að setja það inn aftur. Þannig að ef eitthvað eru nú settar inn hærri — ef við getum kallað það girðingar, það eru kannski ekki beint girðingar — það er sett inn samráðsskylda sem var ekki fyrir hendi. Ég tel því að við séum að koma til móts við þennan titring. Við erum ekki að gefa það út að með þessu frumvarpi eigi að verða miklar sameiningar, eins og mátti lesa úr fyrra frumvarpi, það eru engar áætlanir um sameiningar í ráðuneytinu núna. Ég er t.d. ekki að sýna drög að reglugerð sem fyrst stóð til að sýna, (Forseti hringir.) sem ollu miklum titringi.