133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

embætti landlæknis.

273. mál
[17:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er býsna viðamikið frumvarp sem hér er lagt fram um embætti landlæknis og þó að þar sé í flestu í rauninni tekið á þeim verkefnum sem nú þegar eru fyrir hendi er þar líka árétting um önnur og ný stjórnsýsluverkefni, býsna viðamikil.

Ég velti fyrir mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki kæmi til greina að landlæknisembættið, svo viðamikið eftirlitshlutverk sem það hefur, gerði ráð fyrir að það ræki með formlegum hætti fulltrúa úti um land svipað og héraðslæknarnir voru á sínum tíma sem höfðu þá eftirlit með framkvæmd á heilbrigðisþjónustunni. Einnig á almenningur, notendur heilbrigðisþjónustunnar, að geta komið þangað inn og leitað til embættisins með kvartanir sínar eða ábendingar. Einnig gátu þá héraðslæknarnir verið tengiliðir við almenning gagnvart þeirri þjónustu. Núna er þetta eitt miðstýrt apparat í Reykjavík en þjónustan í sjálfu sér úti um allt land víðtæk. Í ljósi þeirra auknu eftirlitsskyldna og eftirlitshlutverks sem verið er að færa undir embætti landlæknis vil ég spyrja hæstv. ráðherra þegar þetta verður skoðað hvort við ættum þá að taka upp deildir eða fulltrúa úti um land svipað og héraðslæknarnir voru áður fyrr.