133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

embætti landlæknis.

273. mál
[18:02]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki lengja þessa umræðu mikið. En ég mátti til með að ræða um þær skrár sem getið er um í 8. gr. Þar er talað um sjö skrár sem halda má. Mig langar að vita hvort þetta sé tæmandi upptalning af skrám eða hvort landlæknir eða aðrir geti búið til aðrar skrár eða haldið áfram að færa skrár sem eru færðar í dag, fyrir utan þessar skrár.

Þetta var mikið rætt þegar við ræddum um gagnagrunnsfrumvarpið á sínum tíma, fyrir löngu síðan. Nú hafa tveir spítalar verið sameinaðir eftir það. Þá sameinuðust náttúrlega gögnin líka, allar skrár sem þeir tveir spítalar höfðu. Ef við mundum sameina alla spítala í landinu í einn spítala þá hefðum við eina landskrá yfir allt sem varðar heilbrigði manna á einum stað. Þá erum við eiginlega komin með nákvæmlega sama fyrirbærið og stefnt var að á sínum tíma utan þess að kröfurnar um dulkóðun og persónuvernd eru kannski ekki eins stífar.

Það sem mig langar til að fá upplýsingar um er t.d. skrá sem ég hef aldrei skilið að hverju er færð, þ.e. fóstureyðingaskrá. Hún er haldin einhvers staðar. Ég get ekki séð að hún hafi nokkurn einasta tilgang læknisfræðilega eða að öðru leyti. En samt eru þessi gögn geymd, afskaplega viðkvæmar persónuupplýsingar. Hún er ekki talin upp hérna. Mín spurning er sú: Verður þá hætt að safna gögnum í þá skrá eða verður því haldið áfram?