133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

Heyrnar- og talmeinastöð.

274. mál
[18:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Heyrnar- og talmeinastöð. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu og frumvarpi til laga um embætti landlæknis. Er þessum frumvörpum ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um heilbrigðisþjónustu.

Á síðasta löggjafarþingi var lagt fram frumvarp til laga um Heyrnar-, tal- og sjónstöð en með frumvarpinu var gert ráð fyrir að Heyrnar- og talmeinastöð og Sjónstöð yrðu sameinaðar. Eins og kunnugt er náði frumvarpið ekki fram að ganga í þinginu.

Núgildandi ákvæði laga um Heyrnar- og talmeinastöð eru í lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. Við endurskoðun þeirra laga þykir ekki fara vel á því að hafa svo ítarleg ákvæði sem hér um ræðir um eina heilbrigðisstofnun í löggjöf sem ætlað er að vera rammalöggjöf um skipulag heilbrigðisþjónustu. Er því lagt til að efnisákvæði laganna um Heyrnar- og talmeinastöð verði tekin upp í sérlög um stofnunina. Slík sérlög voru í gildi fram til ársins 2001 en þá voru ákvæði þeirra felld inn í lög um heilbrigðisþjónustu. Felur frumvarpið því í sér afturhvarf til þess fyrirkomulags.

Engar efnislegar breytingar eru gerðar á starfsgrundvelli eða hlutverki Heyrnar- og talmeinastöðvar í frumvarpinu og eru ákvæði um gjaldtöku jafnframt óbreytt. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að ákvæði núgildandi laga um útgáfu rekstrarleyfa til annarra sem veita þjónustu á sama sviði og Heyrnar- og talmeinastöð verði felld niður. Er breytingin í samræmi við niðurfellingu ákvæða um útgáfu rekstrarleyfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, samanber frumvarp til þeirra laga. Hins vegar er gert ráð fyrir að landlæknir taki út og staðfesti, á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu, að aðilar sem hyggjast veita þjónustu á þessu sviði uppfylli faglegar kröfur. Þá er ráðherra veitt heimild til fela öðrum aðilum með samningum, í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu, að annast þá þjónustu sem greinir í 2. gr. frumvarpsins eða hluta hennar. Um samningsheimild ráðherra er fjallað nánar í umfjöllun um 7. gr. frumvarpsins hér að neðan

Engar efnislegar breytingar eru gerðar á starfsgrundvelli eða hlutverki Heyrnar- og talmeinastöðvar í frumvarpinu og eru ákvæði um gjaldtöku óbreytt. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að ákvæði núgildandi laga um útgáfu rekstrarleyfa til annarra sem veita þjónustu á sama sviði og Heyrnar- og talmeinastöð verði felld niður. Er breytingin í samræmi við niðurfellingu ákvæða um útgáfu rekstrarleyfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, samanber frumvarp til þeirra laga. Hins vegar er gert ráð fyrir að landlæknir taki út og staðfesti að aðilar sem hyggjast veita þjónustu á þessu sviði uppfylli faglegar kröfur. Þá er ráðherra veitt heimild til semja við aðra aðila um að þeir veiti þá þjónustu, eða hluta þeirrar þjónustu sem Heyrnar- og talmeinastöð er ætlað að veita.

Virðulegi forseti. Ég hef fjallað um aðdraganda þess að lagt er fram frumvarp um Heyrnar- og talmeinastöð og hef gert grein fyrir meginefni þess. Ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.