133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

lækkun virðisaukaskatts á geisladiskum.

[15:31]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Sú aðgerð sem má segja að sé í gangi, að lækka matarverð hér á landi og þar á meðal virðisaukaskatt, hafði í sjálfu sér ekki beinlínis með aðra vöruflokka að gera nema þá að því leytinu til sem varðar þær vörur sem voru í lægra þrepinu, að þær yrðu lækkaðar til samræmis við matvælaverðið til að við kæmum ekki upp þremur gjaldflokkum. Þetta er út af fyrir sig eitt af þeim vandamálum sem koma upp þegar við erum með fleiri en eitt virðisaukaskattsþrep, að við þurfum að velja hvaða vörur eiga að vera í hvaða gjaldflokki. Það má segja að þær ákvarðanir hafi verið teknar fyrir þó nokkuð mörgum árum.

Út af fyrir sig má færa fyrir því rök að það að færa þessar tilteknu vörur sem eru í lægra þrepinu niður um 7% geri muninn enn meiri á milli þess sem hugsanlega er sambærilegt eða staðkvæmdarvara og er í efra þrepinu. Það hafa verið lögð fram gögn og röksemdir fyrir því að einhverjar þeirra yrðu færðar í neðra þrepið samfara þessari breytingu. Þau gögn eru til athugunar hjá okkur í ráðuneytinu eins og staðan er. Kannski er þó ekki tímabært að kveða upp úr með það hver niðurstaðan er en sjálfsagt þegar lagt er í þá vinnu að færa góð rök fyrir breytingum eins og þessum að það sé skoðað. Það kemur auðvitað að því og varla síðar en þegar gengið verður frá frumvarpi og frumvarpið síðan afgreitt frá Alþingi að endanlega verður tekin afstaða til þessa máls.

Eins og svo oft áður, frú forseti, er svarið til hv. þingmanns það að málið sé í athugun.