133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[15:48]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpi sem felur í sér að leiðrétta þá skerðingu á vaxtabótum sem fjöldi fólks varð fyrir vegna mikillar hækkunar á fasteignamati. Ástæða er til að rifja það upp við þessa umræðu að Samfylkingin krafðist þess í umræðum utan dagskrár, áður en þingi lauk síðastliðið vor, að lögunum yrði breytt þannig að komið yrði í veg fyrir þann skell á fjárhag heimilanna sem var yfirvofandi þá vegna skerðingar á vaxtabótum. Hæstv. fjármálaráðherra varð ekki við þeirri eindregnu ósk, sem reyndar kom fram frá fleirum í stjórnarandstöðunni líka, um að lögunum yrði breytt þá þegar síðastliðið vor og því fór svo, eins og við sögðum, að fjöldi fólks varð fyrir mikilli skerðingu í vaxtabótum í ágústmánuði síðastliðnum. Er hér um verulegar fjárhæðir að ræða eins og hæstv. fjármálaráðherra las upp áðan. Reyndar var það svo að sumir sem höfðu haft fullar vaxtabætur, kannski 200 þús. kr., fengu engar vaxtabætur í ágúst. Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að það raskaði verulega öllum greiðsluáætlunum fólks að þessi dráttur varð á því að hæstv. ráðherra leiðrétti þessa skerðingu. Það var reyndar verkalýðshreyfingin sem knúði það í gegn í samningum í sumar að hæstv. ráðherra fór í þessa leiðréttingu.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Voru þeir útreikningar sem þetta frumvarp byggir á unnir í samráði við Alþýðusamband Íslands? Ég held ekki, vegna þess að ég er hér með ályktun frá miðstjórn ASÍ um vaxtabætur, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Mikil hækkun fasteignaverðs á síðasta ári leiddi til þess að vaxtabætur margra skertust verulega. Í tengslum við endurskoðun kjarasamninga í sumar lofaði ríkisstjórnin að leiðrétta skerðinguna. Jafnframt voru gefin fyrirheit um að haft yrði náið samráð við ASÍ um útfærslu leiðréttinganna.

Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á ákvæðum laga um vaxtabætur án samráðs við ASÍ. Frumvarpið, sem er samhljóða tillögum sem ASÍ hafnaði í viðræðum við ríkisstjórn í sumar, tryggir engan veginn leiðréttingu á þeirri skerðingu sem margir urðu fyrir vegna hækkaðs fasteignaverðs. Miðstjórn ASÍ lýsir furðu sinni á þessum vinnubrögðum og krefst þess að ríkisstjórnin standi við gefin loforð.“

Ég varð ekki vör við það, hæstv. forseti, að hæstv. fjármálaráðherra færi neitt inn á þessa yfirlýsingu sem ASÍ sendi frá sér og hæstv. ráðherra kemst ekki hjá því að ræða hana lítillega við okkur úr þessum ræðustóli og svara þeirri spurningu: Hvers vegna var ekki haft samráð við ASÍ um þessa útreikninga? Er það rétt að hæstv. ráðherra sé að leggja fram frumvarp sem ASÍ hafnaði í sumar? Það er mjög nauðsynlegt að fá þetta fram og einnig hvers vegna ekki var haft samráð við ASÍ eins og það lýsir hér. Það er greinilegt að ekki er eining um þetta mál milli ASÍ og ríkisstjórnarinnar og skil ég það reyndar vel miðað við þær forsendur sem lagt er upp með í þessu frumvarpi.

Þegar við ræddum þetta mál áður en þingi lauk í vor töldum við að hér væri um verulegar fjárhæðir að ræða í heild sem skerðing vaxtabóta gæfi. Ég man ekki betur en það hafi komið fram hjá fjármálaráðherra síðla sumars að um 700 millj. kr. væri að ræða, að skerðingin sem fólk varð fyrir væri um 700 millj. kr. Ég gekk því út frá því að setja þyrfti um 700 millj. kr. í endurgreiðslu vaxtabóta til að þessir einstaklingar væru jafnsettir og áður miðað við að fasteignamatið hækkaði ekki eins mikið og raun ber vitni. Nú segir fjármálaráðherra að setja þurfi 200 millj. til viðbótar þeim 300 sem eru í fjárlögum þannig að um sé að ræða 500 millj. í heild. Það þarf að fara yfir skýringu á því í félagsmálanefnd hvar munurinn á þessum 700 og 500 milljónum liggur. Er það vegna þess að hæstv. ráðherra kýs að fara meðaltalsleiðina og miða útreikningana við meðaltal á hækkun á fasteignamati á landinu öllu eða 25% í stað þess að skoða hvert svæði fyrir sig með tilliti til hækkunar á fasteignamati? Þær upplýsingar sem ég fékk þegar ég skoðaði þetta á miðju sumri, og reyndar þegar við ræddum þetta á þinginu í vor, voru að fasteignamatið mundi hækka um nálægt 35%. Ef þetta er rétt, sem ég held fram, þá fær fjöldi fólks ekki fulla leiðréttingu miðað við hækkunina á fasteignamatinu. Þessa útreikninga er mjög brýnt og nauðsynlegt að fara yfir í félagsmálanefnd.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hæstv. ríkisstjórn skerðir greiðslur á vaxtabótum. Ég hygg að ég fari rétt með að frá 2003 hafi skerðingin sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir með ýmsum leiðum í formi lagafrumvarps á Alþingi sparað ríkissjóði um 1,4–1,5 milljarða kr. og það eru þeir 1,4–1,5 milljarðar sem hafðir hafa verið af fólki frá 2003. Fólk hefur því fengið lægri vaxtabætur en það lagði kannski upp með í greiðsluáætlunum sínum þegar það tók lán. Hæstv. ráðherra verður að skoða málið í því ljósi að vaxtabætur eru hluti af greiðsluáætlunum fólks, m.a. þegar það tekur íbúðalán í bönkum eða hjá Íbúðalánasjóði. Það er ekkert annað en að koma aftan að fólki þegar verið er að skerða vaxtabæturnar aftur og aftur, ár eftir ár, þannig að fólk geti engu treyst í þessu efni.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að nú er þetta, ef ég skil það rétt, bara frumvarp um að endurgreiða til þeirra hópa sem urðu fyrir verulegri skerðingu vegna hækkunar á fasteignamati, hvort hann telji ekki ástæðu til að breyta þessu til frambúðar. Eða eiga útreikningar á vaxtabótum miðað við eignaviðmið að vera háð sífelldum sveiflum á fasteignamarkaði? Er ekki nær að hafa einhverja aðra viðmiðun en fasteignamatið? Ég hefði gjarnan viljað sjá að hæstv. ráðherra hefði skoðað það og að við sæjum þess stað í frumvarpinu að verið væri að breyta til frambúðar útreikningunum þannig að eignaviðmiðunarmörkunum væri sleppt eða þau hækkuðu þá í samræmi við vísitölu vegna þess að það er ekki hægt að búa við slíkar sveiflur ef svo miklar sveiflur verða á fasteignamati að það hafi þessi áhrif á vaxtabæturnar eins og raun ber vitni.

Ég á sæti í þeirri nefnd sem fjallar um þetta mál, félagsmálanefnd, og ég mun auðvitað fyrir mitt leyti stuðla að því að málið verði afgreitt þar fljótt og vel. Að vísu þurfum við að fá allar forsendur um útreikninga til nefndarinnar þannig að við getum lagt sjálfstætt mat á þá. Ég veit að fólk úti í samfélaginu bíður mjög eftir því að frumvarpið verði að lögum og það er miður að liðinn sé rúmur mánuður frá því að þingið var sett og að hæstv. fjármálaráðherra sé fyrst núna að afgreiða málið, vegna þess að ég man ekki betur en hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt að hann mundi beita sér fyrir að þetta yrði fyrsta málið sem kæmi fyrir þingið og yrði afgreitt þar fljótt og vel. Það er miður að við skulum fyrst núna vera að ræða þetta mál í 1. umr. og einhvern tíma tekur að fjalla um það í nefndinni. Ég veit að fólk sem hafði reiknað með þessum vaxtabótum í ágústmánuði hefur verið að taka lán og gera ýmsar ráðstafanir og bíður eftir því að þetta frumvarp verði að lögum þannig að það fái endurgreiðslur sínar. En ég hef lagt ákveðnar spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem ég vona að hann svari við þessa umræðu.