133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað lengi hægt að ræða um fólk sem meðaltal. Þetta eru sjálfsagt allt saman réttar meðaltalstölur hjá hv. þingmanni, en þær breyta bara engu um veruleika þess fólks sem er ekki svo heppið að vera í þessu meðaltali. Þarna eiga hundruð eða þúsundir einstaklinga í hlut sem hafa alls ekki náð þessum meðaltalslaunahækkunum, 7% umfram verðlag. Það er til fólk sem hefur ekkert hækkað í launum. Hið hlutlausa dæmi er einstaklingur sem hefur þá algerlega óbreytta aðstöðu hvað varðar bæði laun og skuldir. Þær hafa jú vissulega hækkað sem verðtryggð lán á tímum verðbólgu en það má þá draga verðbólguprósentuna frá fasteignamatshækkuninni. En eru 28% þá ekki nóg fyrir hv. þingmann ef eignin hefur hækkað sem því nemur, þ.e. 35% mínus 7% verðbólgu?

Ef viðkomandi einstaklingur er ekki í þessum 7% hópi, sem hefur hækkað það í launum umfram verðlag, heldur ekki neitt, býr í sinni íbúð, er bara með sín verðtryggðu lán og er að reyna að berjast við að borga af þeim, þá hefur fasteignaverðshækkunin af honum vaxtabæturnar. Það voru raundæmi sem lágu þegar fyrir síðasta vor sem sýndu að fólk sem fékk fullar vaxtabætur árið á undan fengi lítið eða jafnvel ekkert í ár. Þetta er bara veruleikinn sem ríkisstjórnin seint og um síðir er núna að viðurkenna með hundshaus þó. Mér finnst því frammistaðan ekki vera til þess að stæra sig af. Ég held að hv. þingmaður ætti að sleppa þessu meðaltalstali sínu og viðurkenna að menn fóru illa að ráði sínu, komu illa fram við þúsundir manna sem ekki eru í miklum færum til að bæta á sig byrðum.

Við erum ekki að tala um hátekjufólk því að það er hvort sem er vaxtabótalaust út af skerðingarákvæðunum. Við erum ekki að tala um þá sem hafa rokhækkað í launum og eru þar af leiðandi vel staddir miðað við það greiðslumat sem lá til grundvallar hjá þeim (Forseti hringir.) á sínum tíma. Við erum akkúrat að tala um hina sem þetta á ekki við um.