133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:53]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé kannski of í lagt að tala um þetta sem skuld. Í ágúst fengu þeir aðilar sem fengu vaxtabætur þær samkvæmt þeim lögum sem þá voru í gildi. Jafnvel þó að gerðar séu afturvirkar breytingar gerir það ekki það að verkum að um skuld verði að ræða. Eins og ég sagði áðan verður farið með þetta eins og hefðbundið er í viðskiptum milli þessara aðila.

Varðandi síðan það hvort staðið sé við það sem lofað var er fullkomlega staðið við það, og meira en það. Vaxtabætur á árinu verða meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir og við það var miðað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á grundvelli þeirra breytinga sem orðið hafa á fasteignamatinu.

Kjósi síðan einhverjir aðilar, jafnvel þó að það sé ASÍ, að gera ágreining um það get ég einfaldlega ekki borið ábyrgð á því. Það er ekkert einfaldara en að gera ágreining við stjórnvöld um ýmsa hluti, ekkert einfaldara. En þeir aðilar verða að bera ábyrgð á því gagnvart sjálfum sér og sinni samvisku ef þeir kjósa að gera það þannig. Af minni hálfu er staðið við gefin loforð, fullkomlega og meira en það.