133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[17:40]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að fagna ýmsu sem fram kemur í þessu frumvarpi um leið og önnur atriði sem hér eru nefnd og taka á á, kalla á ýmsar spurningar og umræður. Hér er verið að hverfa frá 2% lækkun á tekjuskatti sem var fyrirhuguð og í staðinn kemur 1% lækkun á tekjuskattinum og fram kemur að þessi tillaga sé í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júlí 2006 og er hluti af aðgerðum sem ætlað er að stuðla að áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði.

Hæstv. ríkisstjórn hefur einnig boðað lækkun á sköttum, virðisaukaskatti, vörugjaldi og tollum á matvælum og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvenær við megum eiga von á að það mál komi inn í þingið og hvort ætlunin sé að afgreiða það fyrir áramót.

Það er alveg ljóst að þær breytingar sem hérna eru lagðar til og eru til hagsbóta fyrir mörg heimili, eins og hækkun á skattleysismörkum, breyting á barnabótum o.s.frv., koma ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu 2008 vegna tekna 2007. Útgjaldaáhrifanna af þessu mun því ekki gæta fyrr en vonandi ný ríkisstjórn hefur tekið við og þessi farin frá. En það er nú siður í þessari ríkisstjórn að koma með ýmislegt til hækkunar á útgjöld svona rétt fyrir kosningar en víxillinn af því á svo ekki að greiðast fyrr en að loknum kosningum.

Mig langar aðeins að ræða breytingarnar á barnabótum. Þær felast í því að verið er að hækka aldursviðmið í barnabótum úr 16 í 18 ár, þ.e. þeir sem hafa tekjutengdar barnabætur. En hér er engin viðbót við það sem áður var áformað að því er varðar ótekjutengdu barnabæturnar.

Nú er það þannig varðandi barnabætur að þetta eru raunverulega ekkert annað en láglaunabætur og ríkisstjórnin hefur verið afar dugleg í því frá því að hún settist að völdum fyrir tæpum tólf árum að skerða barnabótakerfið. Og jafnvel þó að það sé verið að skila einhverju af því aftur með þeirri breytingu sem hér er lögð til og með hækkun á skerðingarmörkunum sem höfðu verið ákveðin þá er engu að síður raungildi barnabóta lægra en það var á árinu 1995. Þá voru t.d. greiddar ótekjutengdar barnabætur með öllum börnum, ekki að 7 ára aldri heldur að 16 ára aldri.

Þegar ég segi að þetta séu láglaunabætur, virðulegi forseti, þá er það þannig núna að barnabætur byrja að skerðast við 77 þús. kr. mánaðartekjur hjá einstæðu foreldri og við 155 þús. kr., mánaðartekjur hjá hjónum. Jafnvel þó að hæstv. ríkisstjórn mundi rýmka skerðingarmörkin um 25% þá byrjar skerðingin hjá einstæðu foreldri eftir þá breytingu við 92 þúsund og hjá hjónum við 185 þús. kr. mánaðartekjur. Þetta eru auðvitað ekkert annað en láglaunabætur þegar skerðingin á barnabótunum byrjar að skerðast við þessi tekjumörk.

Við í Samfylkingunni höfum lagt til að þessi skerðingarmörk verði rýmkuð enn meira og miðum við að óskertar barnabætur verði greiddar einstæðum foreldrum með tekjur að 125 þús. kr. á mánuði eða 1,5 milljón í árstekjur og að hjón með tekjur að 250 þús. kr. eða 3 milljónir í árstekjur fengju einnig óskertar barnabætur.

Ef við lítum til dæmis til ársins 2003 þá fengu aðeins um 11,3% einstæðra foreldra óskertar barnabætur og aðeins um 3% hjóna. Með þeirri breytingu sem við leggjum til mundi þetta breytast verulega. Þá mundi um 31,3% einstæðra foreldra fá óskertar barnabætur miðað við að nú eru það 11,3%. Einstæðum foreldrum sem fá óskertar barnabætur mundi því fjölga verulega. Við erum að tala um að á árinu 2003 fengu um 3% hjóna óskertar barnabætur en með þessari breytingu sem við leggjum til þá fengju 10,5% af hjónum óskertar barnabætur.

Mér finnst eiginlega lágmark að fara þessa leið, þ.e. að byrja skerðinguna ekki fyrr en við 125 þús. kr. sem er miðað við lægstu laun í dagvinnu. Ég tel að hér sé því allt of skammt gengið og það eigi raunverulega að vera eitt af forgangsmálunum við breytingu á skattkerfinu að hækka barnabætur.

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra:. Hefur það ekki komið neitt til skoðunar í hæstv. ríkisstjórn eða í ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra að hækka aldursviðmiðið á ótekjutengdum barnabótum sem einungis er til sjö ára aldurs? Nú er greinilega miðað við þegar börn eru á leikskóla. En þegar þau hætta á leikskóla og fara í grunnskóla, svo við tökum dæmi, þá minnkar kostnaður vegna barnanna ekkert við það. Ef miðað er við að ótekjutengdar barnabætur séu fyrst og fremst ætlaðar börnum á leikskóla þá er kostnaðurinn alveg eins mikill þegar grunnskólinn tekur við hjá þeim og útgjöld foreldranna ekkert síðri en er börnin voru í leikskóla.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til greina að hækka þetta viðmið. Við í Samfylkingunni höfum viljað hækka það og miða við að tíu ára aldri. Það þýddi að þá yrðu greiddar ótekjutengdar barnabætur með um 13.000 fleiri börnum en í dag og þá yrði komið til móts við mikil útgjöld foreldra barna á grunnskólaaldri. Ég tel að það sé mjög brýnt og mikilvægt að bæta barnabótakerfið frá því sem nú er og finnst að ríkisstjórnin gangi allt of skammt í því.

Ég fagna því sem fram kemur í þessum tillögum, þ.e. að lagt er til að styrkir frá sveitarfélögum til foreldra barna þar til þau byrja í leikskóla eða grunnskóla teljist ekki til skattskyldra tekna. Mér finnst til mikilla bóta að þessi leið skuli farin. Raunverulega á sama athugasemdin við þetta og barnabæturnar, þ.e. einungis er gert ráð fyrir þessu varðandi leikskólavistun.

Ég spyr hæstv. ráðherra því hér er um að ræða styrki frá sveitarfélögunum sem ekki teljast til skattskyldra tekna — þarna er verið að stíga skref í áttina til þess að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði ekki skattskyld, sem er alveg óhæfa að mínu viti. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna eða styrkir frá sveitarfélögunum ganga aðeins til þeirra sem hafa allra minnst á milli handanna. Þeir fá viðbót fyrir framfærslunni hjá sveitarfélögunum en þá kemur ríkiskrumlan og skattleggur allt saman þannig að fólk nær sér aldrei út úr erfiðleikunum — ég spyr því hæstv. ráðherra líka varðandi fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hvort hann telji það ekki réttlætismál að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga almennt verði undanþegin skatti.

Ég vil líka ræða aðeins um skattalækkanir almennt sem við tókum allgóða rispu um á síðasta þingi, þ.e. hvaða áhrif þær skattbreytingar sem ríkisstjórnin hefur farið í hafa haft á skattbyrði fólks almennt. Ég held að það sé varla hægt að neita því, virðulegi forseti, og liggja fyrir um það alls konar útreikningar og gögn sem staðfesta það, meira að segja frá fjármálaráðherranum sjálfum að skattbyrði á fólk með lágar og meðaltekjur hefur þrefaldast til fjórfaldast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Til vitnis um það eru nú bara svör fjármálaráðherra sjálfs á hv. Alþingi. Það sem hefur verið gert til þess að lækka skatta í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur einungis runnið til 10% þeirra sem mest hafa á milli handanna hér á landi.

Vissulega er góðra gjalda vert að hækka skattleysismörkin úr 79 þús. kr. í 90 þús. kr. Ég man ekki betur en að þessi breyting hafi komið inn í tengslum við kjarasamningana. En hæstv. ráðherra hlýtur að vita að ef skattleysismörkin hefðu haldið raungildi sínu frá því sem þau voru þegar þessi ríkisstjórn tók við fyrir tæpum tólf árum þá ættu þau að vera 137 þús. kr. núna eða 47 þús. kr. hærri en þau verða eftir þessa breytingu. Það er alveg ljóst að skerðingin á skattleysismörkunum hefur komið mjög illa niður á fólki með lágar tekjur, meðaltekjur, ég tala nú ekki um lífeyrisþegana. Ríkissjóður hefur orðið sér út um ófáa milljarðana — mig minnir að ég hafi séð töluna yfir 30 milljarða — miðað við þá skerðingu sem hefur orðið á skattleysismörkum. Það hefur verið nýtt til þess að lækka skatta þeirra sem betur hafa það. Þetta eru nú staðreyndir málsins.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um lífeyrisþegana sem hafa orðið hvað harðast úti vegna skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Fólk sem greiddi engan skatt fyrir tólf árum er farið að greiða kannski 12–14% af tekjum sínum í skatt. Telur hæstv. ráðherra það nú ekki vera skoðunarinnar virði að greiðslur úr lífeyrissjóðum beri ekki tekjuskatt heldur sama skatthlutfall og fjármagnstekjur? Tveir þriðju af lífeyrisgreiðslum sem fólk fær úr lífeyrissjóðunum eru ekkert annað en fjármagnstekjur.

Við sjáum við álagninguna núna á þessu ári að þessi hópur fjármagnseigenda sem hefur bara fjármagnstekjurnar sér til framfærslu og greiðir ekki nema 10% skatt fer sístækkandi. Sumir hafa verulegan hluta af framfærslu sinni í fjármagnstekjum og kannski minni hlutann í almennum launatekjum og greiða hlutfallslega miklu minna í skatt en til dæmis lífeyrisþegar og almennir launþegar. Mér finnst því að hæstv. ráðherra ætti nú að skoða það af alvöru að fara þá leið að láta lífeyrisgreiðslurnar bera fjármagnstekjuskatt. Það er eitt af því sem til dæmis Samtök aldraðra hafa mjög sett á oddinn, þ.e. að fá inn í lagabókstafinn þessa leið til að lækka skatta þeirra.

Þetta eru þær spurningar sem ég hef fram að færa til hæstv. ráðherra nú við 1. umr. þessa máls. Ég fjalla um þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég sakna þess að hér séu ekki ýmsir útreikningar sem við hefðum þurft að hafa við höndina þegar við fjöllum um þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd, til dæmis hvernig þessi 1% skattalækkun kemur niður á ákveðnum tekjuhópum. Ég spyr hæstv. ráðherra um það hvort hann eigi ekki slíka útreikninga til vegna þess að kallað verður eftir þeim í efnahags- og viðskiptanefnd. Eins er nauðsynlegt að fá að vita hvaða áhrif þessar breytingar á barnabótakerfinu varðandi skerðingarmörkin sem áður voru ákveðin koma út fyrir hina ýmsu tekjuhópa.

Sömuleiðis þurfum við að fá útreikninga varðandi skattleysismörkin. Ég sakna þess að ekki skuli fylgja hér með í fylgiskjali útreikningar um áhrifin á einstaka tekjuhópa Það hefði verið mjög til hagræðis fyrir efnahags- og viðskiptanefnd sem hefur nú ekki mjög langan tíma til að fjalla um þetta mál. Hér er stórt mál á ferðinni og ýmislegt er þarna til bóta frá því sem verið hefur fyrir heimilin í landinu. Ástæða er til að fagna því sem vel er gert og ekkert undan því að draga. En ég hef nú við 1. umr. látið koma fram athugasemdir mínar og ég kalla eftir svörum hæstv. ráðherra við þeim.