133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[17:59]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hv. þingmaður var hæstv. félagsmálaráðherra — því vill hún gjarnan gleyma — tók hún upp, samþykkti og stóð að hækkun barnabóta en stórlegri tekjutengingu þeirra með þá hugsun í huga að það fólk sem hefði háar tekjur þyrfti ekki eins miklar barnabætur. Þetta er alveg skiljanlegt og ég tek alveg undir þetta.

Vandamálið í huga hv. þingmanns er að síðan hafa laun hækkað þvílík ósköp, um 60% umfram verðlag, að fleiri og fleiri hafa hærri tekjur og þurfa þar af leiðandi, samkvæmt skilgreiningu hv. þingmanns frá því hún var félagsmálaráðherra, ekki á bótunum að halda af því að þeir hafa svo háar tekjur. Ég veit ekki hvort þetta sé mjög erfitt vandamál. Mér þykir þetta ánægjulegt vandamál, þ.e. að alltaf þurfi færri og færri á barnabótum að halda vegna hárra tekna. Mér finnst það ánægjulegt.

Varðandi lífeyrissjóðina og tilvísun í að einhverjir séu með óskaplega háar fjármagnstekjur einhver staðar. Það má vel vera. En það fólk er líka að taka mikla áhættu. Sumir tapa mjög miklu sem hafa grætt áður myndarlega. Í fjármagnstekjuskattinum felst því einmitt áhættan sem er ekki fyrir hendi í lífeyrisgreiðslum, alla vega á meðan eftirlitskerfið vinnur þannig að lífeyrissjóðirnir fara ekki á hausinn. Þá er mjög mikið öryggi í lífeyrisgreiðslunum. Þeir peningar hafa ekki verið tekjuskattaðir nema örfá ár og 6% hafa alltaf verið tekjuskattsfrí og 4% hafa alltaf verið tekjuskattsfrí nema í sjö ár.

Það að taka upp fjármagnstekjuskatt á lífeyrisgreiðslur kæmi því eingöngu þeim sem hafa mjög háan lífeyri til góða því hinir falla nefnilega undir frítekjumörkin að mestu leyti.