133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:10]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að fæstir hafi séð fyrir það svigrúm sem ríkisvaldið hafði til skattalækkana eins og kom í ljós síðar, eins og hv. þingmaður viðurkenndi áðan. Við hefðum notað það skattasvigrúm með allt öðrum hætti þegar það hefði komið í ljós að við hefðum haft meiru úr að spila en var fyrirséð fyrir kosningarnar 2003. Ég held að þetta hafi verið svipaðar fjárhæðir sem Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin ætluðu að verja til skattalækkana en við vildum verja þeim með allt öðrum hætti til að það gagnaðist betur láglaunahópunum og heimilunum í landinu.

Þegar hv. þingmaður heldur því fram að skattastefna ríkisvaldsins hafi ekki skert kjör heimilanna þá er það bara rangt. Það liggja fyrir svör frá hæstv. fjármálaráðherra um að skattar á fólk með lágar og meðaltekjur hafi hækkað þrefalt til fjórfalt (Gripið fram í: … en kaupmátturinn …) á þessu kjörtímabili, (Gripið fram í.) það liggur alveg ljóst fyrir. (Gripið fram í: … kaupmáttur …) Svör ráðherra staðfesta það, virðulegi forseti.

Þegar verið er að tala um kaupmáttaraukninguna þá hefur hún ekki gengið jafnt til allra hópa. Hv. þingmaður ætti að kynna sér það hvað t.d. lífeyrisþegar hafa fengið mikið af kaupmáttaraukningunni á þessu kjörtímabili. Það hefur t.d. verið reiknað út af hálfu Landssamtaka eldri borgara að kaupmáttur grunnlífeyris og tekjutryggingar er ekki nema 25% þegar hann hefur verið helmingi meiri til annarra.

Það sem hefur gerst í tíð núverandi ríkisstjórnar er að láglaunahóparnir og lífeyrisþegarnir hafa verið skildir eftir. Það er alveg sama hvaða mælikvarðar eru notaðir, hvort það er kaupmáttarmælingin eða hvort við mælum þetta í skattbyrði og hvernig hún hefur þróast hjá einstaka tekjuhópum á kjörtímabilinu, það hallar alltaf á þessa tekjulægstu og lífeyrishópana alveg sama hvernig málið er skoðað og hvað menn reyna að halda öðru fram.

Mælingar sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa leyft sér að halda fram hérna úr ræðustól eru alveg með ólíkindum þegar þeir bera saman 100 þús. kr. vorið 1995 og 100 þús. kr. í dag og fá út að skattbyrðin hafi lækkað hjá fólki. Það eru aldrei bornar (Forseti hringir.) saman raungildistölur, sem á auðvitað að gera. (Gripið fram í: Jú, jú, ráðherrann er alltaf að því.)