133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:13]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svo sem margt við ræðu hv. þingmanns að athuga en ætla þó bara að staldra við eitt atriði til að vita hvort ég hef skilið hv. þingmann rétt. Hann sagði, hafi ég tekið rétt eftir, að þegar farin væri sú skattalækkunarleið að beita flatri prósentulækkun, sem vissulega yrði til þess að auka meira tekjuhlið þeirra sem hærri hefðu launin, ætti vinnumarkaðurinn á móti að taka niður launahækkanir hjá þeim sem hæst hefðu launin. Ég skildi orð hv. þingmanns þannig.

Þá kemur til viðbótar spurning við þetta: Telur hv. þingmaður að verkalýðshreyfingin eigi að taka mið af slíkum lagasetningum sem ríkisstjórnin hefur sett í forgang varðandi skattalækkanir og fara þá leið að lækka launin hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar? Hversu mikið telur þá hv. þm. Pétur H. Blöndal að launin hjá þeim hæst launuðu hefðu átt að lækka þegar hátekjuskattur var afnuminn í áföngum frá 7% og niður í 0%? Samkvæmt því sem hv. þingmaður sagði áðan hefði vinnumarkaðurinn átt að bregðast við því að tekjur þessa hóps manna voru verulega auknar með sérstökum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem ríkisstjórnin setti reyndar í forgang sinnar skattalækkunarstefnu, að lækka tekjur á þeim hæst launuðu. Þá langar mig til að vita, af því að ég veit að hv. þingmaður er töluglöggur maður: Hversu miklu lægri ættu laun mannsins sem er með milljón á mánuði, eða hefði verið það fyrir nokkrum árum þegar ríkisstjórnin fór af stað með þessa stefnu, að vera í dag miðað við þessa framsetningu?