133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:18]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, staðgreiðslu skatta og fjármagnstekjur. Ég vil aðeins ítreka nokkra hluti sem ég kom inn á í andsvörum við tvo hv. ræðumenn fyrr í dag. En fyrst og fremst vil ég fagna 2. gr. þessa frumvarps og verð að vera ósammála hv. þm. Álfheiði Ingadóttur þar um. Ég held reyndar að við séum sammála um meginmarkmiðið með hugsuninni þótt auðvitað geti verið pólitískur ágreiningur um leiðina að því.

En greinin hljóðar þannig:

„Við 2. tölulið A-liðar 7. gr. laganna bætist við nýr málsliður, svohljóðandi: Styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima, frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að það hefur leikskólavistun eða grunnskólanám, teljast ekki til tekna hjá móttakanda.“

Í athugasemd um þessa grein segir enn fremur í frumvarpinu:

„Í 2. tölul. A-liðs 7. gr. tekjuskattslaga er að finna tegundir greiðslna sem ekki teljast til skattskyldra tekna og er með frumvarpi þessu lagt til að skýrt sé að styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barna fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima séu undanþegnir skattskyldu. Nokkur sveitarfélög hafa kynnt áform um slíka styrki og eru með ákvæðinu tekin af öll tvímæli um hugsanlega skattskyldu slíkra greiðslna. Tilgangurinn með greiðslum sem þessum er að styðja við foreldra sem leggja áherslu á að vera með börnum sínum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Niðurgreiðslur sveitarfélaga á leikskólagjöldum og daggæslugjöldum í heimahúsum eru ekki skattskyldar hjá foreldrum eða forráðamönnum barna. Með tilliti til jafnræðis er því lagt til að framangreindir styrkir verði ekki taldir til skattskyldra tekna.“

Ég sakna þess raunar, herra forseti, að ekki sé sérstaklega fjallað um þennan hlut málsins í umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Það er ekki tekið sérstaklega fram hvað þetta kosti eða hvaða tekjutap verði vegna breytingarinnar, eða hvernig má orða það. En sjálfsagt er ekki einfalt að áætla það vegna þess að það liggur fyrir að mörg sveitarfélög hafa lýst því yfir að þau muni ekki taka upp greiðslur sem þessar ef einhver vafi leikur á því að ríkissjóður ætli hluta af þeim greiðslum til tekna hjá sér.

Í því sambandi hefði ég, svo sem eins og hv. þingmaður, óskað eftir að fjármálaráðherra veitti ákveðnar upplýsingar vegna þess að staðreyndin er sú að það eru áform um fleira en þetta. Reykjavík, þar sem ég er formaður borgarráðs og raunar formaður ÍTR líka, hefur t.d. áform um að kynna á næstunni svokölluð frístundakort sem eru niðurgreiðslur til barna og unglinga til íþróttastarfsemi eða annarrar æskulýðsstarfsemi. Það geta verið umtalsverðar upphæðir á ári.

Ég hef áhuga á að fá að vita hvert viðhorf fjármálaráðherra er til þessa, þ.e. hvort hann telji að slíkar greiðslur séu hlunnindi til barna og unglinga. Ég veit að mörg önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa haft áhyggjur af þessu vegna þess að það sama hlýtur að gilda um slíkar tómstundagreiðslur, eða frístundakort, eins og við ætlum að láta það heita í Reykjavík, og þær fjölskyldugreiðslur sem hér um ræðir, að sveitarfélögin hafa hvorki áhuga né nokkra burði til að færa fjármagn til ríkissjóðs með þessum hætti. Ætlunin með þessu er að koma til móts við þarfir barna og unglinga til að geta tekið þátt í tómstundastarfi. Það er því afar mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra skeri úr um að þær greiðslur falli með sama hætti undir þessa skilgreiningu, eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég hvet þess vegna hv. nefndarmenn hér á Alþingi sem fá þetta mál til umfjöllunar í nefnd til að skoða sérstaklega hvort ekki komi fleiri greiðslur þar til umræðu.

Að mörgu leyti get ég reyndar tekið undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur varðandi umönnunarbætur. Þegar maður veltir þeim fyrir sér þá tel ég ekki ósanngjarnt, satt að segja, að þær féllu undir þetta líka, svo dæmi sé tekið.

Í sjálfu sér ætlaði ég fyrst og fremst að vekja athygli á þessu. Ég hefði einnig haft áhuga á því að fara aðeins yfir þátt barnabótanna í ljósi ummæla hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í dag. En mér skilst að hún sé horfin af vettvangi. Ég vil þó leggja áherslu á að í upphafi þessa kjörtímabils við myndun stjórnarsáttmála lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að hækka barnabæturnar umtalsvert og það hefur verið gert. Um það hefur verið ágæt samstaða. Við getum sjálfsagt deilt um hvort það hafi verið nægilega mikið og verðum kannski aldrei fullkomlega sammála um það.

En ég er sammála því sjónarmiði að það eigi með ýmsum hætti að reyna að bæta stöðu fjölskyldufólks á Íslandi. Við höfum ýmis tæki til þess. Fyrst og fremst tel ég nauðsynlegt að fjölskyldufólk sem og annað fólk á vinnumarkaði hafi örugga atvinnu. Ég held að atvinnuleysi sé einhver mesti bölvaldur fjölskyldnanna í landinu. Sömuleiðis er nauðsynlegt að ekki séu lagðar ósanngjarnar álögur á fólk sem er tilbúið til þess að vinna og jafnvel mikið, samhliða því að við stuðlum að fjölskylduvænu umhverfi þar sem fólk hefur líka frítíma, til að auka lífsgæðin og vera með börnunum sínum.

Ég vek athygli á því að mörg sveitarfélög hafa uppi metnaðarfull áform um samþættingu skóladags þannig að frístundir, íþróttir, listnám og annað falli í auknum mæli undir skólatímann, fari jafnvel inn í töflu. Þetta kostar allt mikla peninga því þetta mun þýða mikla grundvallarbreytingu, t.d. hjá íþróttahreyfingunni, sem þarf þá í auknum mæli að ráða til sín menntaða leiðbeinendur sem sinna þessu í aðalstarfi en ekki í aukastarfi eftir hefðbundna vinnu.

Ég tel því að íslenskt samfélag sé í rauninni í mjög auknum mæli að feta sig inn á fjölskylduvænni aðstæður. Það tekur hins vegar tíma og kostar mikla peninga. Ég held að um það sé ekki pólitískur ágreiningur. Hins vegar er ágreiningur um hvernig við öflum þeirra peninga. Ég verð að viðurkenna að ég skil stundum ekki alveg þá flokksmenn hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur sem í einu orðinu koma með metnaðarfull áform um útgjöld hins opinbera, í mörgum tilfellum til mjög góðra mála, en taka í hinu orðinu jafnvel fyrir aukna tekjumöguleika ríkisins, t.d. í formi uppbyggingar atvinnustarfsemi. Þá er ég ekki bara að tala um stóriðju, heldur einnig t.d. starfsemi viðskiptabankanna, eins og ég kom hér inn á áðan.