133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:30]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu rekst hvert á annars horn. Hugmyndin um þessar greiðslur er að þær séu valkvæðar til að koma í veg fyrir hættuna á að mömmurnar, eins og hv. þingmaður nefndi, lendi í mömmugildru. Þess vegna yrðu þær valkvæðar þannig að fólk geti notað greiðslurnar til niðurgreiðslu á þjónustu dagforeldra til að vera lengur heima með börnunum eða fengið nákomna ættingja til þess. Það er akkúrat hugmyndin til að koma í veg fyrir að þetta beinist að mömmunum í þessu tilviki. Það er mikill misskilningur ef hv. þingmaður hefur lesið það úr ræðu minni eða því sem ég hef sett fram um þessi mál í opinberri umræðu, að þetta eigi að koma í staðinn fyrir þjónustu leikskóla.

Ég setti þessa hugmynd fram til að brúa bilið þar til börnin fara á leikskóla. (ÁI: Ekki grunnskóla?) Ég tel ekki að þetta komi í staðinn fyrir leikskóla. Ég tel að þetta brúi bilið fram að 18 mánaða aldri, svo það liggi fyrir, frá 12 mánaða aldri þegar fæðingarorlofið verður komið í það horf. Ég hef ekki talað fyrir þeim sjónarmiðum að þetta komi í staðinn fyrir leikskólavist og þótt það sé heimild í þessu frumvarpi að þetta gildi fram að grunnskólaaldri þá hefur það t.d. ekki verið rætt í fjölskyldunefndinni eða af hálfu þessara sveitarfélaga. Ég hef skilið þessa umræðu þannig að aðeins væri verið að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólavistun hefst, svo ég sé alveg skýr með það.