133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var nokkuð merkileg söguskýring, verð ég að segja, hæstv. forseti, að vinstri stjórnin á árunum 1989–1990 — því að skattleysismörkin voru tekin upp 1988 — hafi náð þeim árangri að rýra skattleysismörkin svo mikið að 15 ára valdatími Sjálfstæðisflokksins við völd hér í landi hafi ekki dugað til til þess að leiðrétta það. Þetta er alveg makalaust af svona vel menntuðum manni að setja þetta svona fram, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Já, ég vona að hv. þingmaður reikni þetta út og sýni alþjóð fram á það að rýrnun skattleysismarkanna hafi eingöngu átt sér stað á árunum 1989–1990 og þar megi leita alls vafans og allra vandræða sem af því stafi.

Varðandi það sem hv. þingmaður talaði um ofskattað atvinnulíf vill nú svo til, held ég, hæstv. forseti, ef mig brestur ekki minni, að ég held að allir þingflokkar á Alþingi hafi staðið að því að samþykkja lækkun tekjuskattsprósentu á atvinnulífið, mig minnir það. (Gripið fram í.) Það er rétt, Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið hér við völd í 15 ár en það var enginn ágreiningur um það, ef ég man rétt, að lækka tekjuskatt af atvinnulífinu og taka þar upp aðra skattprósentu. Það hefur hins vegar verið mikill ágreiningur um hvernig ríkisstjórnin hefur beitt skattalækkunarreglum sínum gagnvart launþegum, sem hefur orðið til þess að þeir lakast settu er verr settir en áður, en þeir best settu, sem höfðu hæstu launin, eru enn betur settir en þeir voru áður. Þetta er bara einfaldlega stefna sem ég held að menn geti ekki náð sátt um og ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur það á stefnuskrá sinni að halda svona áfram þá er greinilegt að stjórnarandstaðan mun ekki ná saman um neinar skattbreytingar í þessa veru með Sjálfstæðisflokknum.