133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:35]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Ég fagna mjög þeim áherslum sem fram hafa komið í máli þeirra þingmanna sem hér hafa talað, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði. Hún benti á kosti þessara aðgerða stjórnvalda og mikilvægi þess að þeim verði haldið áfram.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að í íslenskum kvikmyndaiðnaði er mikil gróska og ég vil meina að a.m.k. tvær myndir sem frumsýndar hafa verið á þessu hausti, títtnefnd mynd Mýrin en um leið Börn, beri þess auðvitað merki.

Annað vitni um gróskuna er sú staðreynd að Íslendingar framleiða 3–5 sinnum fleiri myndir en gert er annars staðar á Norðurlöndunum ef við tökum tillit til fólksfjölda. Kom þetta fram í fróðlegu erindi Ágústs Einarssonar prófessors í Þjóðarspeglinum í háskólanum um daginn.

Hin einstæða íslenska náttúra og sú staðreynd að við eigum mikið af vel menntuðum og reyndum kvikmyndagerðarmönnum á öllum sviðum í framleiðslu kvikmynda gefur okkur einmitt ótal tækifæri. Stjórnvöld, með okkur framsóknarmenn í broddi fylkingar, beittu sér einmitt fyrir þessari löggjöf fyrst 1999 og svo árið 2001 sem hefur það einmitt að markmiði að efla íslenskan kvikmyndaiðnað. Öll verkefni á sviði kvikmyndaiðnaðarins sem framleidd eru á Íslandi fá endurgreiðslu sem nemur 12% af þeim framleiðslukostnaði sem fellur til á landinu. Þá er undanskilinn launakostnaður sem ekki er skattlagður hérlendis.

Áhrif lagasetningarinnar hafa verið mikil eins og sést á íslenskum kvikmyndum haustsins og einnig hafa áhrifin orðið þau að hingað hafa erlendir aðilar leitað og tekið upp kvikmyndir sínar í samstarfi við íslenska aðila að fullu eða hluta. Nægir þar að nefna dæmi eins og Tomb Raider, Batman og nú síðast Flags of our Fathers sem mun vekja enn meiri athygli á Íslandi sem tökustað. Áhrifin hafa líka orðið í íslenska auglýsingaiðnaðinum en hér á landi eru teknar ótal erlendar auglýsingar, annaðhvort til fulls af íslenskum aðilum eða í samstarfi við þá.

Frumvarpið sem við ræðum hér í dag tryggir áframhald þessara aðgerða stjórnvalda sem miða að því að styrkja enn frekar þennan mikilvæga iðnað sem kvikmyndaiðnaðurinn er. Nái það fram að ganga tryggir það verkefninu áframhald í fimm ár.

Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu ráðherrans hér áðan um að við ættum að skoða það í meðferð þingsins hvort hækka eigi endurgreiðsluhlutfallið meira enda eru fleiri lönd farin að keppa við okkur á þessu sviði. Eins og fram hefur komið í máli þeirra þingmanna sem hér hafa talað eru áhrif þessara aðgerða auðvitað geysimikil, ekki einungis ársverkin sem hér hafa verið rædd og þeir milljarðar sem hafa komið, heldur hafa myndirnar líka heilmikil áhrif á ferðaþjónustuna. Rannsóknir hafa sýnt að hingað hafa margir erlendir ferðamenn leitað eftir að hafa séð myndbrot af íslenskri náttúru í íslenskum eða erlendum kvikmyndum. Ef ég hef lesið mér rétt til hafa tekjur af þessum erlendu ferðamönnum jafnvel skilað okkur hærri framlögum en sem nemur þessum skattaívilnunum stjórnvalda og því finnst mér að við ættum að taka það sérstaklega til greina að hækka endurgreiðsluhlutfallið enn meir.

Ég tel, frú forseti, mikilvægt að hlúa áfram að íslenskri kvikmyndagerð. Það er í anda þeirrar atvinnustefnu sem stjórnvöld hafa lagt upp með á síðustu árum, þ.e. að auka fjölbreytni atvinnulífsins, nýsköpun, frumkvöðlastarf og skapandi atvinnugreinar. Kvikmyndaiðnaðurinn er svo sannarlega á meðal þessara skapandi atvinnugreina. Við eigum að efla starfsumhverfi hans og vaxtarmöguleika enn frekar og þetta frumvarp er ein forsenda þess að það gangi eftir.