133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

álbræðsla á Grundartanga.

93. mál
[15:04]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum. Frumvarp þetta er nú lagt fram að nýju þar sem ekki náðist að afgreiða það á síðasta þingi.

Í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá 1. júní 2005 kemur fram það mat stofnunarinnar að íslenskum stjórnvöldum beri að grípa til viðeigandi aðgerða til að gæta þess að samningar við Norðurál ehf. feli ekki í sér óeðlilega mismunun á ríkisstyrkjum til aðila. Stofnunin taldi að breytinga væri þörf bæði á fjárfestingarsamningi íslenskra stjórnvalda og Norðuráls ehf. sem og á lögum nr. 62/1997. Í ljósi þessa úrskurðar er í a-lið 2. gr. frumvarpsins lagt til að felldur verði niður b-liður 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna sem fjallar um álagningu fjármagnstekjuskatts á arð.

Í gildandi lagaákvæði er kveðið á um að 5% tekjuskattur skuli lagður á arð sem greiddur er hluthöfum í félögunum að því tilskildu að þeir séu búsettir í OECD-ríki og að 25% af hlutafé í félaginu séu í eigu hluthafans á skattaári fyrir greiðslu arðs. Hér eiga því ekki, samkvæmt þessari tillögu nú, að gilda áfram sérstök sérákvæði, heldur almennar íslenskar lagareglur.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið kom í kjölfar samningaviðræðna um stækkun Norðuráls fram ósk frá fulltrúum fyrirtækisins um breytingar á samningi sem kallar á breytingar á lögunum. Annars vegar er um að ræða breytingu á tilgreiningu á rekstrarformi en Norðurál er nú einkahlutafélag en ekki hlutafélag. Er þessi breyting lögð til í 1. gr. frumvarpsins. Hins vegar er lagt til að lögunum verði breytt til samræmis við ákvæði laga um álverksmiðju í Reyðarfirði en þar er kveðið á um að félagið skuli undanþegið breytingum sem kunna að verða á skattlagningarákvæði um frádrátt vaxtakostnaðar.

Með þessari breytingu er aðstaða félaganna jöfnuð hvað þetta varðar. Breytingin er lögð til í b-lið 2. gr. frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki frekari orð um frumvarpið og legg til að því verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.