133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

álbræðsla á Grundartanga.

93. mál
[15:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki vel að mér í sértækum aðgerðum sem settar hafa verið í lög vegna stóriðjufyrirtækja og ég skil kannski ekki þetta frumvarp vel, er ekki vel heima í þeim atriðum sem það fjallar um. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort með frumvarpinu sé verið að breyta þeim ákvæðum sem hingað til hafa gilt um skattgreiðslu Norðuráls og hvort verið sé að færa almennt skattgreiðslu fyrirtækisins til sama vegar og gildir um önnur fyrirtæki í landinu. Ef svo er sýnist mér engu að síður að standa eigi vörð um einhver ákvæði varðandi frádrátt vaxtakostnaðar í lögum um tekjuskatt og þar virðist vera að eigi að halda áfram úti einhvers konar sérákvæðum sem eiga að gilda um Norðurál. Ég spyr: Ef þetta er til þess að koma Norðuráli inn í almennt skattumhverfi, af hverju er það þá ekki gert að öllu leyti? Hvers vegna er skrefið þá ekki stigið til fulls?

Í öðru lagi langar mig að vita hvernig þetta er hvað varðar skattaívilnanir álfyrirtækisins í Straumsvík. Er það orðið sambærilegt við það sem hér er verið að fara fram á varðandi Norðurál?