133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

álbræðsla á Grundartanga.

93. mál
[15:10]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að halda ræðu núna en mér finnst ástæða til þess vegna þeirra orðaskipta sem hafa orðið hérna í dag. Það er sem sagt verið að segja, og hæstv. ráðherra hefur sagt það áður, að engar sérreglur gildi um þessa starfsemi hvað varðar skattálögur. Þó fylgir það að samt sem áður séu sérreglur hvað varðar vaxtaþáttinn sem er þá örugglega, þótt ég hafi ekki skoðað það nákvæmlega, til þess að fyrirtækin geti nýtt sér afslátt af sköttum vegna vaxtakostnaðar. Þar fyrir utan eru þessi fyrirtæki, eftir því sem ég man best, með allt öðruvísi álögur vegna fasteignaskatta en önnur fyrirtæki í landinu. Ég vil að því sé haldið til haga að það er alls ekki búið að koma þessum fyrirtækjum inn í það skattumhverfi sem önnur fyrirtæki landsins eru í þó að það hafi verið gert hvað þennan þátt varðar.