133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:18]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum. Það er á þingskjali 292, 279 mál.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun og frumvarpi til laga um breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð. Með því er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tengdur við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar.

Tilefni þessa frumvarps er einnig að tryggja að hið aukna fjármagn sem lagt var til sjóðsins með lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2005 verði nýtt í samræmi við áherslur yfirvalda í málefnum nýsköpunar- og atvinnuþróunar. Samkvæmt þeim lögum fær sjóðurinn 1.500 millj. kr. viðbótarframlag á árunum 2007–2009 til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun nýrra samlagssjóða með lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum enda nemi eignarhlutur annarra en Nýsköpunarsjóðs í slíkum sjóði að minnsta kosti. 50%.

Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Frumvarp þetta er að mestu efnislega samhljóða því frumvarpi en þó hafa þær breytingar verið gerðar að nú er lagt til að einungis þurfi að leita samþykkis iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra ef Nýsköpunarsjóður hyggst fjárfesta í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum með fjármagni sem á rætur að rekja til söluandvirðis Landssíma Íslands, samanber áðurnefnd lög nr. 133/2005, í öðrum tilvikum þurfi ekki samþykki ráðherranna. Í frumvarpinu sem lagt var fram í vor var lagt til að sjóðurinn skyldi ætíð leita samþykkis ráðherra vegna slíkra fjárfestinga óháð því hvort fjármagnið ætti rætur að rekja til söluandvirðis Landssímans eður ei.

Einnig er nú lagt til að sérstakt refsiákvæði í lögunum verði fellt brott. Er það gert til að gæta samræmis við ákvæði laga um aðrar ríkisstofnanir og um refsinæmi fer þá eftir almennum hegningarlögum.

Helstu breytingar á gildandi rétti sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu eru sem hér segir:

Í fyrsta lagi mun Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins að meginstefnu til einungis taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðurinn mun veita lán og ábyrgðir í tilteknum tilfellum, samanber 8. gr. frumvarpsins. Sjóðurinn mun ekki veita styrki eins og heimild er fyrir samkvæmt gildandi lögum. Kveðið er á um að Nýsköpunarsjóður skuli taka mið af stefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs í störfum sínum.

Í öðru lagi er kveðið á um heimild til handa Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til að taka þátt í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum, samanber 5. gr. laga nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Kveðið er á um að leita þurfi samþykkis iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra hyggist Nýsköpunarsjóður fjárfesta í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum með fjármagni sem á rætur að rekja til söluandvirðis Landssíma Íslands, í öðrum tilvikum þurfi ekki samþykki ráðherra.

Í þriðja lagi segir að ekki skuli skipa stjórnarmann til lengri tíma en fimm ára. Stjórnin skal setja sér reglur um sjónarmið við mat á fjárfestingartækifærum og umsóknum um lán og ábyrgðir sem ráðherra staðfestir. Áréttað er að ákvarðanir Nýsköpunarsjóðs séu endanlegar á stjórnsýslustigi.

Í fjórða lagi er í frumvarpi þessu er lagt til að eigið fé Nýsköpunarsjóðs sé að lágmarki 3.000 millj. kr., sem muni taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Eigið fé, sem ekki er bundið í fjárfestingarverkefnum eða lánum, skal ávaxta í samræmi við fjárfestingarstefnu sem kveðið verður á um í reglugerð og starfsreglum stjórnar. Skylda er lögð á Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að útvista ávöxtun framangreinds eigin fjár.

Í fimmta lagi eru ákvæði um tryggingardeild útflutnings, sem verið hefur sérstök deild innan Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, felld niður. Í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, er gert ráð fyrir að tryggingardeild útflutnings verði vistuð innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Í sjötta lagi er vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins lögð niður. Eigið fé hennar verður hluti af eigin fé Nýsköpunarsjóðs, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða.

Í sjöunda lagi er kveðið á um heimild til handa Nýsköpunarsjóði að gera afleiðusamninga til að verjast gengisáhættu.

Í áttunda lagi er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið muni ekki hafa eftirlit með lögunum, eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Talið er fullnægjandi að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með reikningum sjóðsins og hvernig hún ver eignum sínum.

Í níunda lagi er lagt til að ákvæði um refsinæmi brota gegn lögunum verði fellt brott.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.