133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:28]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að samkvæmt báðum þessum frumvörpum sé verið að þrengja verulega, að fækka í raun úrræðum sem ríkið hefur á sínum höndum. Það er verið að draga úr stuðningi við þessi fyrirtæki samkvæmt því hvernig þessi frumvörp liggja hér fyrir.

Ég vil lýsa yfir áhyggjum mínum af því vegna þess að til þarf að koma mun fjölbreyttari stuðningur við þessi sprotafyrirtæki heldur en lagt er upp með í þessum tveimur frumvörpum. Þetta er nokkuð sem við verðum að skoða mjög vel. Það nægir mér ekki að heyra hæstv. ráðherra segja að þetta sé til stöðugrar endurskoðunar vegna þess að það hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú að koma með öflugan stuðning til handa þessum sprotafyrirtækjum vegna þess að við þurfum að fara að byggja upp hér miklu fjölbreyttara atvinnulíf en við höfum gert hingað til.

Við eigum að setja fyrirtæki á sviði hátækni og nýsköpunar í öndvegi en ekki draga úr stuðningi við þau vegna þess að þær leiðir sem farnar eru hér með lánum og ábyrgðum henta ekki öllum þessum fyrirtækjum. Þær henta bara alls ekki öllum þessum fyrirtækjum. Mörg þeirra eru það lítil. Á upphafsstigi þurfa þau miklu frekar styrki og annars konar stuðning heldur en lán eða ábyrgðir eða beinar fjárfestingar af hálfu sjóða á vegum ríkisins.

Þess vegna vil ég í þessari umræðu brýna menn í þá átt að leggja til fjölbreyttari stuðning við sprotafyrirtækin. Mér finnst við þurfa að skoða betur þær leiðir sem farnar eru annars staðar og vil halda mjög á lofti þeirri leið sem farin hefur verið að nota endurgreiðslur á þróunarkostnaði vegna þess að það er þessum fyrirtækjum gríðarlega mikilvægt.

Ég hef áhyggjur af framboði á þolinmóðu fjármagni fyrir þessi fyrirtæki sem tekur 10—15 ár að byggja sig upp. Þau þurfa fyrst og fremst þolinmótt fjármagn og alvöru stuðning. Ríkisvaldið styður margs konar atvinnuvegi, til dæmis stóriðju. Við eigum að beina stuðningi að þessum fyrirtækjum fyrst og fremst.