133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Andsvar mitt lýtur að svipuðum hlutum og hér voru tilefni orðaskipta. Ég hef reynt að átta mig á hvernig verkaskipting eigi að vera milli aðila í þessum efnum og kannski einkum og sér í lagi milli Nýsköpunarsjóðs annars vegar og leifanna af Byggðastofnun, Byggðasjóði, hins vegar. Samkvæmt því sem greinir í frumvarpinu á Nýsköpunarsjóður, fyrir utan meginhlutverk sitt eins og ég hef skilið það vera, einfaldlega að leggja hlutafé í nýsköpunarfyrirtæki, vera samstarfsaðili frumkvöðla og þeirra sem eru að reyna að koma á fót eða efla fyrirtæki, með því að vera meðeigandi þeirra um skeið og draga sig síðan út úr fyrirtækinu þegar það hefur náð nokkrum þroska. Þá á Nýsköpunarsjóður að geta veitt lán og ábyrgðir og það vakti sérstaka athygli mína að Nýsköpunarsjóður á að verða að einhverju leyti að lánasjóði og geta veitt ábyrgðir á lán. Hins vegar á að loka Byggðasjóði sem lánasjóði, hann á bara að geta veitt ábyrgðir. Hvorugur þessara aðila á að geta veitt styrki.

Nú bið ég hæstv. iðnaðarráðherra að vera svo vinsamlegan og reyna að útskýra aðeins fyrir mér og öðrum rökin fyrir þessu. Hver eru rökin, vísindin á bak við það að halaklippa Byggðasjóð og Byggðastofnun með þeim hætti sem raun er á eða á að verða og loka Byggðasjóði sem lánasjóði — hvað þá að taka af honum heimildir til styrkja sem hann hefur að vísu sáralítið getað notað undanfarin ár vegna fjárleysis — og skilja eftir hjá honum eitthvert ábyrgðarhlutverk en víkka í raun og veru út starfsemi Nýsköpunarsjóðs, án nokkurrar byggðaskilgreiningar, til þess að vera til viðbótar því að vera fjárfestir líka (Forseti hringir.) lánasjóður og ábyrgðaveitandi?