133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[16:51]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki á þessu nýja frumvarpi að sjá að haft hafi verið verulegt samráð við þá aðila sem munu verða neytendur þessarar stofnunar í framtíðinni, vegna þess að gagnrýni þeirra var það ákveðin og skýr á svo mörgum þáttum í málinu sem sér engan stað í þessu nýja frumvarpi að tekið hafi verið tillit til. Vil ég þar nefna, eins og ég tiltók áðan, að það var gagnrýnt hvernig stjórnsýsluskipulagið væri, að ekki skuli vera stjórn yfir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar sem verður skipaður beint af ráðherra. Menn töldu það orka tvímælis vegna þess að það gæti gert stofnunina ótrúverðuga af því að þar eiga að fara fram óháðar rannsóknir.

Virðulegi forseti. Ég nefndi líka atvinnuþróunarfélögin og sömuleiðis að allar þær umsagnir sem við fengum voru á þá leið að menn töldu að þessar tvær stoðir, þ.e. byggðamálin annars vegar og nýsköpunarstarfið hins vegar, eins og þetta var sett upp í frumvarpinu, mundu veikja hvor aðra í þessari stofnun.

Það hefur ekki verið tekið nægilega á þessu og auk þess, eins og ég nefndi í andsvari í málinu á undan, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, er í þessu frumvarpi verið að þrengja að og fækka leiðum til stuðnings fyrirtækjum sem eru í nýsköpun og þróunarstarfi hvort heldur þau eru á landsbyggðinni eða hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er verið að þrengja möguleika þeirra vegna þess að það helsta sem í boði núna er annars vegar ábyrgð á lánum til fyrirtækja á landsbyggðinni og hins vegar Tækniþróunarsjóður til fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og þar renna eins og ég kom inn á áðan eingöngu (Forseti hringir.) 14% til fyrirtækja en annað til opinberra stofnana.