133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[16:53]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er óhætt að segja að við metum þetta ekki eins, ég og hv. þingmaður sem nú lauk máli sínu. Í fyrsta lagi er hin almenna þróun í stjórnsýslunni sú að forstöðumenn séu skipaðir og að ekki séu stjórnir í stofnunum, þeim hefur fækkað mjög á undanförnum árum. Hins vegar er í þessu frumvarpi gert ráð fyrir í fyrsta lagi samráðsnefnd með fulltrúum atvinnulífsins, eins og ég rakti áðan, í öðru lagi sérstakri stjórn fyrir Byggðasjóð og í þriðja lagi bráðabirgðaákvæði um sérstaka nefnd til að fjalla um rekstrarform Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Í öðru lagi met ég það ekki á sömu lund og hv. þingmaður, þótt ég vilji virða sjónarmið hennar, að nýsköpunarþátturinn og byggðamálaþátturinn veiki hvor annan. Ég lít þvert á móti svo á að þarna geti orðið og eigi að verða mjög mikilvæg samefling. Ég lít svo á að það sé mjög nauðsynlegt að nýsköpunarviðhorfin verði ráðandi um stuðning við atvinnulífið alls staðar í landinu en ekki síst úti á landsbyggðinni.

Hv. þingmaður talaði síðan um verið væri að þrengja möguleika. Ég held ekki, ég held þvert á móti að við séum að draga skynsamlegar ályktanir af þeirri þróun sem orðið hefur á fjármála- og fjárfestingarmörkuðum á Íslandi, að við séum að draga eðlilegar ályktanir af því. Ég nefndi reyndar í fyrra dagskrárlið í dag þær hugmyndir sem hafa verið uppi um tillit til rannsókna- og þróunarkostnaðar í fyrirtækjum sem við höfum ekki nefnt í þessari umræðu að þessu sinni fyrr en nú, en ég tel þvert á móti að við séum að draga eðlilegar ályktanir af þróun fjárfestingarmarkaðanna og lánamarkaðanna og það sé ekki verið að þrengja möguleika.