133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[17:08]
Hlusta

Guðjón Guðmundsson (S):

Hæstv. forseti. Samkvæmt því frumvarpi sem hér er til umræðu þá skal sameina Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Iðntæknistofnun og Byggðastofnun í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Ég tel að hér sé gengið of langt. Ég er sammála því að sameina Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, enda um náskyldar stofnanir að ræða. Það virðist í mörg ár hafa verið almenn skoðun þeirra sem um það fjalla að þær stofnanir eigi vel saman í einni.

Ég tel hins vegar að Byggðastofnun eigi ekki heima með hinum tveimur vegna þess að þessar þrjár stofnanir eiga sáralítið sameiginlegt. Það virðist reyndar mjög almenn skoðun. Ef við skoðum athugasemdir við lagafrumvarpið þegar það var síðast lagt fram kemur fram að þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, skipaði í september 2004 starfshóp til að gera tillögur um endurskipulagningu tæknirannsókna. Starfshópurinn var skipaður af þeim Sveini Þorgrímssyni, skrifstofustjóra í iðnaðarráðuneyti, Eddu Lilju Sveinsdóttur, deildarstjóra á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, og Ingólfi Erni Þorbjörnssyni, forstöðumanni á Iðntæknistofnun.

Hópurinn skilaði niðurstöðum sínum til iðnaðarráðherra í nóvember 2004. Það var einróma niðurstaða hópsins að unnt væri að efla opinberar tæknirannsóknir með því að sameina starfsemi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Starfshópurinn taldi að sameiningin mundi leiða til samlegðaráhrifa sem væri ein veigamesta forsenda þess að aukinn árangur næðist í alþjóðlegri samkeppni á sviði tæknirannsókna og nýsköpunar sem gæti leitt til bættrar samkeppnisstöðu Íslands. Undir þetta tók síðan Vísinda- og tækniráð í ályktun sinni frá desember 2004, en þar segir, með leyfi forseta:

„Vísinda- og tækniráð styður sameiningu Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og beinir því til iðnaðarráðherra að vinna áfram að þeirri sameiningu á grundvelli greinargerðar starfshóps iðnaðarráðherra um tæknirannsóknir með áherslu á náin tengsl við háskólana.“

Á grundvelli þessara eindregnu niðurstaðna skipaði iðnaðarráðherra enn nefnd í febrúar 2005 sem skyldi m.a. gera tillögur um verkefni og innra skipulag nýrrar stofnunar um tæknirannsóknir og að mikilvægi samfélagslegs hlutverks tæknirannsókna skyldi lagt til grundvallar með sérstakri tilvísun til þýðingar þeirra fyrir framþróun íslensks atvinnulífs og bætta samkeppnisstöðu Íslands. Reksturinn ætti m.a. að stuðla að heilbrigðri samkeppni og uppfylla kröfur samkeppnislaga.

Í þessari ágætu nefnd, sem var skipuð mörgum þungavigtarmönnum, áttu sæti Magnús G. Friðgeirsson, formaður stjórnar Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, Hallgrímur Jónasson, forstjóri Iðntæknistofnunar Íslands, Hákon Ólafsson, forstjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, Ingólfur Þorbjörnsson, forstöðumaður á Iðntæknistofnun, Ólafur Wallevik, deildarstjóri á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Sveinn Þorgrímsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu.

Þessi nefnd skilaði niðurstöðum til ráðherra með greinargerð í september 2005. Á grundvelli jákvæðrar niðurstöðu nefndarinnar ákvað iðnaðarráðherra að undirbúa sameiningu þessara stofnana, þ.e. Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Það var sem sagt niðurstaða þeirra fjölmörgu sérfræðinga og sérfróðu manna sem ég hef vitnað til að sameina skyldi þessar tvær stofnanir.

En á þessu stigi fær þáverandi iðnaðarráðherra skyndilega þá hugmynd að bæta Byggðastofnun í sameiningarpakkann. Hún fól ráðgjafarfyrirtæki að greina valkosti varðandi framtíðarþróun Byggðastofnunar. Þetta ráðgjafarfyrirtæki samanstóð af einstaklingi sem nýlega var fluttur heim frá Danmörku eftir langa dvöl þar. Ýmislegt af því sem þessi ráðgjafi setti fram í skýrslu sinni var mjög umdeilanlegt og margir sem vel þekktu til voru ósammála ýmsu því sem þar var sett fram. Staðreyndin er sú að margar jákvæðar umbætur höfðu þá nýlega verið gerðar á verklagi Byggðastofnunar. Þær umbætur voru leiddar af núverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Jóni Sigurðssyni, en hann vann frábært starf sem formaður stjórnar Byggðastofnunar. Hans var enda sárt saknað þaðan þegar hann fór til starfa sem seðlabankastjóri. Gerðar höfðu verið verulegar endurbætur á starfsemi stofnunarinnar þegar þessi skýrsla var sett fram og skýrslan varð mjög umdeild og margt í henni sem menn voru hreinlega ekki sammála.

Með þeirri starfsemi sem hér er lögð til leggst af lánastarfsemi Byggðastofnunar. Það tel ég mjög miður vegna þess að bankakerfið er ekki tilbúið að sinna landsbyggðinni. Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi um það, bæði ný og gömul, að lán Byggðastofnunar hafi skipt sköpum í atvinnulífi á landsbyggðinni og í fjölmörgum tilfellum hafa þau hreinlega orðið til þess að fyrirtæki hafi eflst og dafnað. Þegar þau hafa verið komin í góðan gír hafa bankarnir svo yfirtekið þessi lán, sem er hið besta mál. Ég tel að það sé andstætt byggðastefnunni að afleggja þessa lánastarfsemi.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að Byggðastofnun hafi þurft að afskrifa verulegar upphæðir á undanförnum árum og það er rétt. En hið sama á reyndar við um bankakerfið og lánastarfsemi þess. Í þessu tilfelli er oft talað um lánastarfsemi Byggðastofnunar sem pólitískt sukk. Mér finnst sú umræða byggjast á miklum fordómum og misskilningi vegna þess að vinnubrögðum varðandi lánastarfsemi Byggðastofnunar hefur einfaldlega verið gjörbreytt fyrir nokkrum árum. Það má vel vera að þau hafi verið losaraleg áður, meðan verklagið var þannig að hver einasta lánsumsókn fór fyrir stjórn Byggðastofnunar og hún ákvað hvort lána ætti og hve mikið.

En á þessu varð sú breyting fyrir nokkrum árum að stofnað var til lánanefndar sem samanstendur af embættismönnum stofnunarinnar, forstjóra, lögfræðingi og þeim lánasérfræðingi sem hefur gert greiningu á viðkomandi lánsumsókn. Þessi lánanefnd afgreiðir mál. Hún afgreiðir öll smærri lán, að 35 millj. kr, án þess að leggja það fyrir stjórn. Hún gerir síðan tillögu og greiningu fyrir stjórn um öll stærri mál og eftir því sem ég best veit hefur stjórnin alltaf farið eftir þeim tillögum og samþykkt þær. Allt tal um sukk og svínarí á þeim bæ er því löngu úrelt. Það er löngu liðin tíð, hafi það einhvern tímann verið svo, sem ég efast reyndar um. Lánveitingar eru markvissari en áður var og undirbúnar með sama hætti og hjá öðrum lánastofnunum. Nú er fínt að tala um greiningardeildir og það er einfaldlega þannig að lánasérfræðingar greina hvert einasta lán og gera nákvæma úttekt á því.

Hér er lagt til að Byggðasjóður veiti ábyrgðir á lán til landsbyggðarinnar og þær megi nema allt að 75%. Tekið er fram í greinargerð að við undirbúning frumvarpsins hafi verið haft samráð við banka og önnur fjármálafyrirtæki og að undirtektir þeirra við tillögum um lánsábyrgðir hafi verið mjög jákvæðar. Skyldi nú engan undra. Auðvitað væru slíkar ábyrgðir himnasending fyrir bankakerfið og ekki merkilegt að þeir skuli samþykkja slíkt með bros á vör.

Virðulegur forseti. Ég er einfaldlega ósammála þessari breytingu á lánastarfseminni og því að taka eigi upp ábyrgðir í staðinn. Ég vona að iðnaðarnefnd skoði það með opnum huga að lánastarfseminni verði haldið áfram og jafnframt að nefndin skoði vel hvort ekki sé rétt að Byggðastofnun haldi velli, sem ég tel að væri besta niðurstaðan. Eins og hér hefur komið fram var lögð á það mikil áhersla í síðustu byggðaáætlun að efla starfsemi Byggðastofnunar.

Hér hefur líka komið fram að mikil andstaða var við málið á síðasta þingi. Ég vorkenni hæstv. iðnaðarráðherra, þeim ágæta manni, að fá þetta frumvarp í arf. Ég spái því að þrátt fyrir góðan vilja hans til að bæta frumvarpið muni áfram verða við það mikil andstaða á Alþingi og í þjóðfélaginu.