133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[17:52]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en nefnt það hér að þegar þetta mál er tekið til umræðu líður manni svolítið eins og í ágætri bíómynd sem heitir Groundhog Day en þar var maður sem vaknaði alltaf upp dag eftir dag á sama deginum og upplifði það sama. Hér erum við, virðulegi forseti, með sama frumvarp og í fyrra og erum að ræða nákvæmlega sömu þætti. Við erum að ræða nákvæmlega þá þætti sem voru gagnrýndir harkalega af svo til öllum umsagnaraðilum um þetta mál á liðnu þingi.

Síðan gerist í þessari umræðu líka nákvæmlega það sama og gerðist á síðasta vetri. Það kemur í ljós að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna eru ekki sammála um málið nema núna er það hv. þm. Guðjón Guðmundsson sem er andvígur málinu en á síðasta þingi var það hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson.

Það er mér auðvitað undrunarefni að þetta mál skuli koma hér inn aftur með þessum hætti vegna þess að það er augljóst af öllu málinu að ekki hefur verið haft frekara samráð við framtíðarneytendur þessarar Nýsköpunarmiðstöðvar nú en áður.

Virðulegi forseti. Það hefur verið farið ágætlega yfir það hér hver aðdragandi þessa máls var og mér finnst hugmynd um sterka Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem kemur með öflugum hætti að uppbyggingu á fjölbreyttu atvinnulífi um land allt verulega heillandi hugmynd. Mér finnst engu að síður aðferðafræðin hér röng, kolröng. Þetta segi ég vegna þess að í þessu frumvarpi erum við að fjalla um svo gjörólíka hluti. Við erum annars vegar með nýsköpun og tækniþróun sem vissulega á við um og fyrir landið allt. Það á ekki að gera greinarmun á því hvort fyrirtæki eru á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu. Síðan erum við hins vegar með það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir hér áðan, hið fjölbreytta svið byggðamál. Það er svo margt annað en eingöngu nýsköpun og tækniþróun sem fellur undir byggðamál. Ég ætla ekki að fara yfir það hér heldur var það gert ágætlega í ræðum á undan.

Þetta var gagnrýnt á síðasta þingi. Þetta var gagnrýnt bæði úr byggðamálaáttinni og nýsköpunaráttinni. Úr báðum þessum áttum var málið gagnrýnt og þess vegna finnst mér undarlegt að það skuli koma svona inn hér aftur. Ég hefði talið farsælast að menn hefðu sest betur yfir málið og í sameiningu og í samráði við hlutaðeigandi aðila, t.d. félag sprotafyrirtækja og atvinnuþróunarfélögin sem gagnrýndu þetta frumvarp harkalega, farið yfir það og smíðað nýtt frumvarp sem líklega hefði þá endað í tveimur frumvörpum, annars vegar um eflingu á sviði byggðamála og hins vegar um eflingu á sviði stuðnings við nýsköpun og tæknirannsóknir.

Virðulegi forseti. Það kom fram í greinargerð frumvarpsins í fyrra og að sjálfsögðu greinargerð frumvarpsins núna að í rúmt ár var unnið skipulega að því að sameina Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun. Í september á síðasta ári lauk þeirri vinnu. Á þeim tíma sem leið frá því að þeirri vinnu lauk og þangað til í vetur, einhvern tímann í mars að ég tel, kom allt í einu Byggðastofnun inn í þetta batterí ásamt þessum þremur sjóðum, eins og af himnum ofan inn í mjög vel undirbúna sameiningu. Hún gerbreytti auðvitað öllum forsendum sameiningar þessara tveggja stofnana, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar.

Virðulegi forseti. Það verður, og það eru allir sammála um það, að efla tæknirannsóknir og stuðning við nýsköpun og sprotafyrirtæki um land allt. En það þarf að gera í samráði við þá aðila sem munu nýta sér þennan stuðning svo að almennilegt gagn verði að því. Ég spurði hæstv. iðnaðarráðherra að því áðan með hvaða hætti þessu samráði hefði verið fyrir komið í sumar á meðan breytingar á þessu frumvarpi hefðu staðið yfir. Mér fannst ég ekki fá skýr svör við því. Auðvitað hefði átt að fara af stað eftir svona mikið deilumál eitthvert formlegt samráðsferli til þess að afurðin gæti gagnast mönnum sem best.

Virðulegi forseti. Það sem við höfum rætt hér talsvert er þetta skrýtna skipurit sem er ekki til fyrir þessa stofnun, heldur þetta undarlega skipulag sem virðist vera á stofnuninni. Eitt var talsvert gagnrýnt og ég kom inn á það í andsvari áðan við hæstv. ráðherra, að forstjóri skuli vera pólitískt skipaður, einráður, yfir öllu galleríinu. Þetta hefur verið gagnrýnt og var gagnrýnt við umfjöllun málsins á síðasta þingi. Þetta var gert þá og menn lýstu undrun sinni á því að ekki væri fagleg stjórn yfir slíkri stofnun þar sem atvinnulífið og t.d. háskólarnir skipuðu fulltrúa sína. Þetta töldu menn nauðsynlegt vegna þess að pólitísk stjórn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands væri óheppileg þar sem að þar ættu að fara fram óháðar rannsóknir, þetta gæti gert stofnunina ótrúverðuga.

Á þessar raddir, virðulegi forseti, eigum við að hlusta. Ég nefndi þetta áðan við hæstv. ráðherra sem hélt því fram að það væri nútímaleg stjórnsýsla að koma málum svona fyrir. Þar kristallast kannski sú andstæða skoðun eða sýn sem við höfum á þetta mál að ég lít ekki svo á að hér sé verið að setja á laggirnar eða eigi að vera sett á laggirnar einhver stjórnsýslustofnun, heldur á hér að koma upp öflug rannsóknastofnun og þjónustustofnun við rannsóknir og tækniþróun. Það tvennt eru gjörólíkir hlutir, þ.e. einhver stjórnsýslustofnun annars vegar og síðan öflug rannsóknastofnun og þjónustustofnun fyrir tækniþróun og rannsóknir í landinu. Yfir slíkri stofnun hefði maður talið að æskilegt væri, og kom fram í máli manna á síðasta ári, að væri fagleg stjórn og ekki eingöngu ráðherraskipaður forstjóri.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson fór ágætlega yfir það áðan hvað það blasir sérkennilega við okkur alþingismönnum sem sitjum í iðnaðarnefnd hvernig farið var með afgreiðslu þessa máls annars vegar og byggðaáætlunar á síðasta þingi hins vegar. Í byggðaáætluninni kemur nefnilega skýrt fram vilji. Í fyrsta lagi var þetta mál tekið af dagskrá á síðasta þingi. Það var ákveðið að það væri vanreifað og gæti ekki orðið afgreitt á síðasta þingi. Því varð mikil samstaða um það í iðnaðarnefnd að afgreiða stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 þar sem sérstaklega er tekið á þremur þáttum í nefndaráliti iðnaðarnefndar, sameiginlegu nefndaráliti. Er sá þriðji og ekki sá sísti sá að það ætti að efla Byggðastofnun og gera henni kleift með fjárframlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála. Þetta kom fram hjá allri iðnaðarnefndinni sameinaðri.

Þarna lít ég svo á að við höfum sagt skýrt að hverfa ætti frá þeirri hugmynd að Byggðastofnun fari inn í þessa Nýsköpunarmiðstöð eins og menn voru að reyna á síðasta þingi. Ég leit svo á að þarna hefðu menn staðfest að ekki yrði haldið áfram með málið eins og gert er nú, hvað þá að það kæmi nánast óbreytt hingað aftur inn í þingsali með greinilega sömu deilurnar á bakinu eins og á milli þingmanna stjórnarflokkanna, eins og raunin er og sýndi sig hér í umræðum áðan.

Þess vegna finnst mér að þetta verði að koma fram vegna þess að á síðasta þingi héngu þessi tvö mál saman, þ.e. afgreiðsla byggðaáætlunar og sú staðreynd að þetta frumvarp um Nýsköpunarmiðstöð færi ekki í gegnum þingið síðasta vor. Menn fögnuðu því með því að leggja þessa miklu áherslu, þverpólitískt á alla stjórnmálaflokka, á að efla ætti Byggðastofnun og gera henni kleift með framlögum í fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála.

Í ljósi þessa finnst mér afar undarlegt að Nýsköpunarmiðstöðin komi hér aftur inn með Byggðastofnun eins og farangur í hálfgerðu reiðileysi, eins og sagt var hér áðan.

Virðulegi forseti. Það kom líka fram, og mér finnst mikilvægt að koma inn á það, að í því frumvarpi sem hér liggur fyrir hefur heldur ekki verið tekið nægilega skýrt á þætti atvinnuþróunarfélaganna. Atvinnuþróunarfélögin gagnrýndu þetta frumvarp harkalega á síðasta þingi. Þar kom fram frá þeim að hér væri um að ræða eitt þeirra hlutverka sem Byggðastofnun hefði haft með höndum, þ.e. að atvinnuþróunarfélögin hefðu að hluta til verið fjármögnuð með samstarfssamningum við Byggðastofnun. En ekki er getið um það hvað verði gert við þá samninga þegar Byggðastofnun verður lögð niður og þetta er eitt þeirra hlutverka eins og áður sagði sem Byggðastofnun hefur haft með höndum og virðist hafa gleymst í óðagotinu við að leggja þessa stofnun niður.

Það er augljóst af öllu þessu máli að því miður er verið að eyðileggja gott mál, hugmyndina um Nýsköpunarmiðstöð Íslands, öfluga stuðningsstofnun, öfluga rannsóknastofnun fyrir nýsköpunargeirann og tækniþróunina, með því að fara þessa mjög svo undarlegu krókaleið fyrir Framsóknarflokkinn til að losa sig við vandræðabarnið, Byggðastofnun, sem Framsóknarflokkurinn er búinn að eiga í vandræðum með alla tíð í þessu ráðuneyti, hæstv. iðnaðarráðuneytinu. Við skulum bara tala um hlutina nákvæmlega eins og þeir eru. Hæstv. iðnaðarráðherra og forveri núverandi hæstv. iðnaðarráðherra hafa ekkert ráðið við þetta verkefni sem Byggðastofnun er, og byggðamálin.

Það hefur komið fram að byggðamálin eru þverfagleg mál. Það má til gamans geta þess að við í Samfylkingunni höfum lagt gríðarlega mikla áherslu á að þau séu vel unnin og á þverfaglegan hátt og við lögðum til að Byggðastofnun heyrði undir forsætisráðuneytið, ætti frekar heima þar en hjá iðnaðarráðuneytinu þar sem um væri að ræða svo víðtækt starfssvið.

Ég get nú ekki látið hjá líða að nefna stuðninginn við sprotafyrirtækin sérstaklega. Það er þannig, virðulegi forseti, að mér finnst þessi ríkisstjórn mismuna atvinnugreinum. Það hefur komið fram víða. Mér þykir miður að þessi ríkisstjórn ætli ekki að leggja í myndarlegan, öflugan stuðning við sprotafyrirtæki, uppbyggingu hátækniiðnaðar og annars slíks iðnaðar hér á landi vegna þess að það er undirstaða þess að við byggjum hér upp fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar.

Hvað þarf til þess að við getum byggt upp öflugan tækniiðnað, öflug sprotafyrirtæki? Það þarf þolinmótt fé. Mér er mjög til efs að sú leið sem menn fara hér framleiði slíkt fé, t.d. eins og Byggðasjóður á að gera um landið til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar þar, úti á landsbyggðinni. Mér er til efs að lán frá bankastofnunum og lánastofnunum séu þetta þolinmóða fé sem þessi fyrirtæki þurfa. Þó að ríkisábyrgðir séu veittar á slík lán er mér til efs að þetta fé verði eitthvað þolinmóðara en það er í dag. Ef það verður eitthvað þolinmóðara verður það samt aldrei nægjanlega þolinmótt. Eins og ég hef nefnt í ræðum fyrr þurfa þessi fyrirtæki sem ég talaði um 10–15 ár til að komast almennilega á legg. Mér er stórlega til efs að þetta þolinmóða fé fáist til þess tíma.

Mér þykir ástæða líka að nefna í þessari umræðu að það er gríðarlega mikilvægt að verulega aukið fé verði veitt til Tækniþróunarsjóðs og hann efldur til muna. Menn eiga á næstu árum að leggja mjög myndarlega í þann sjóð vegna þess að þessi sprotafyrirtæki eiga að vera einn af okkar stærstu vaxtarsprotum á næstu árum.

Mér þótti afar merkilegt í störfum nefndarinnar á síðasta þingi þegar það kom fram varðandi Tækniþróunarsjóð og úthlutanir hans til fyrirtækja að hlutfall þess fjár sem fyrirtækið fengi úr sjóðnum væri eingöngu tæplega 20%. Nefnd var talan 16% og ég segi hana hér eins og okkur var kynnt hún. Það þýðir að rúmlega 80% fara til rannsóknastofnana ríkisins og háskólanna. Til hinna raunverulegu sprotafyrirtækja fara eingöngu eitthvað um 16%. Þetta þykir mér verulegt áhyggjuefni. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða sérstaklega, að við berjum okkur ekki á brjóst hér fyrir að vera með myndarlega sjóði til að efla tækniþróun og nýsköpun og styðja við sprotafyrirtæki þegar við leggjum í gegnum þennan sjóð megnið af fénu til stofnana ríkisins. Þetta verða menn að skoða hvað þennan sjóð varðar.

En ég hef sagt að mér finnst mikilvægast, og við höfum talað fyrir því, samfylkingarmenn, að við viljum fara fjölbreyttar leiðir, bæði í stuðningi við byggðir landsins og líka í stuðningi við uppbyggingu nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Þegar ég tala um nýsköpunar- og sprotafyrirtæki er mjög mikilvægt að það komi fram að þarna megum við aldrei undanskilja landsbyggðina. Þetta á við nýsköpunar- og sprotafyrirtæki um land allt. Fjölbreyttari leiðir verða að koma til vegna þess að þessi fyrirtæki eru gríðarlega ólík innbyrðis, misstór, misburðug og með afar mismunandi vöru. Sumum hentar hreinlega ekki að fá fjárfestingu inn í fyrirtækið og þar með talið mann í stjórn og slíkt vegna þess að þau eru bara hreinlega of lítil til þess. Sá stuðningur sem kemur inn með þeim hætti verður þá íþyngjandi fyrir þessi fyrirtæki.

Því vil ég, og ég hvet hæstv. iðnaðarráðherra til að taka það til sterkrar skoðunar, að við förum aðrar leiðir á þessum sviðum, m.a. með því að skoða þessar endurgreiðslur sem nefndar hafa verið og ég hef nefnt hér í fyrri ræðum, endurgreiðslur á rannsókna- og þróunarkostnaði fyrirtækja. Þetta hefur verið gert með mjög áhrifaríkum hætti í t.d. Noregi og Kanada. Það er bara þannig að íslenskt atvinnulíf stendur á þessu sviði í mikilli varnarbaráttu gegn því að missa þessi fyrirtæki til landa þar sem umhverfið er þeim hagstæðara. Það er ekki nóg, virðulegi forseti, að vera hér með hagstætt skattumhverfi fyrir fyrirtæki vegna þess að það gagnast þessum fyrirtækjum ekkert, fyrirtækjum í uppbyggingu sem eru að þróa nýja vöru og geta flokkast undir sprotafyrirtæki. Við verðum að koma með öflugan stuðning til þeirra á uppbyggingarárum þeirra sem talin eru vera 10–15 ár.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er að enda. Það eru nokkur önnur atriði sem ég hefði viljað koma að en ég vonast til að nefndin eigi eftir að taka öll þessi mál vel upp, að hægt verði að ræða þessi mál almennilega, að það verði hlustað á þær gagnrýniraddir sem heyrast, að vinnubrögðin verði betri en þau voru á síðasta þingi og að við eigum eftir að ná samkomulagi um þessi mál. Það er mjög mikilvægt fyrir báða þessa málaflokka, byggðamálin þverfaglegu og uppbyggingu nýsköpunar og tækniþróunar í landinu.