133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum í grunninn sameiningu þriggja stofnana, tveggja heilbrigðra og einnar sjúkrar. Svo fylgir málinu draumur um opinbert rannsóknar- og háskólastarf.

Herra forseti. Það hefur orðið gífurleg aukning í tæknirannsóknum hér á landi, aðallega hjá fyrirtækjum. Þar eru fyrirtæki sem stunda rannsóknir í tengslum við starf sitt, ég nefni Íslenska erfðagreiningu sem dæmi og mörg önnur fyrirtæki í útrás sem stunda miklar rannsóknir. Ég tel að atvinnulífið eigi að stunda tæknirannsóknir á eigin forsendum og eigin kostnað, ríkið geti stuðlað að grunnrannsóknum og fræðilegum rannsóknum. Þar á inngrip ríkisins heima en ekki annars staðar.

Hvers vegna erum við að sameina þessar þrjár stofnanir? Orsökin er Byggðastofnun og vandamál hennar. Eins og við ræddum fyrr í dag varðandi nýsköpun, fjárfestingar og opinbert fé hefur Byggðastofnun verið ein hryggðarmynd alla tíð. Þar hafa menn ráðstafað opinberu fé til nýsköpunar, til að koma á jafnvægi í byggðum landsins út frá alls konar forsendum. Það hefur yfirleitt alltaf tapast. Síðan lendir Byggðastofnun í samkeppni við bankana sem, vegna þess að menn fóru í almennar aðgerðir til að stuðla að hagsæld í atvinnulífinu, ekki sértækar heldur almennar, hafa vaxið gífurlega. Þeir eru nú farnar að herja út á land með lágum vöxtum á lánum, meira að segja til bænda. Fyrir tíu árum hefðu fæstir búist við að bændur fengju samkeppni um lán en þangað er fjármagnið komið líka, út á landsbyggðina.

Afleiðingin er sú að Byggðastofnun dagaði upp eins og nátttröll í fjöllunum. Og nú á að gera eitthvað við greyið. Ráðuneytið kann ekki önnur ráð fyrir þá sjúku stofnun en að setja hana í kippu með tveimur heilbrigðum stofnunum og búa til úr því einn allsherjardraum sem heitir Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það var ekkert annað. (Gripið fram í: Nýsköpunarmiðstöð ríkisins.)

Ef við ræðum rétt aðeins um þessar tvær heilbrigðu stofnanir, Iðntæknistofnun með því ágæta fyrirbæri Impru, sem ég tel mjög þarft, og svo Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, þá gætu þær stofnanir nánast staðið undir sjálfum sér. Þær þurfa ekki að vera ríkisstofnanir. Þær hafa mjög góðar tekjur af útseldri þjónustu og ég er viss um að með smáaðlögun væri hægt að breyta þeim í ohf., síðan í hf. og selja þær. Ríkið gæti jafnvel grætt á því. Þær mundu veita enn betri þjónustu þegar þær væru orðnar sjálfstæðar og þyrftu að standa á eigin fótum. Ég hugsa að þær gætu farið að hagnast eins og bankarnir sem alltaf töpuðu þangað til þeir voru seldir. Það væri mjög góð lausn fyrir atvinnulífið að fá tæknirannsóknir á því formi.

Varðandi Impru mundi ég vilja að ráðuneytið skoðaði, eins og ég nefndi áðan, að Impra veitti þjónustu gegn gjaldi, bara kostnaðarverði en fyrirtækin fengju það lánað þar til þau gætu borgað það. Það yrði þá á ábyrgð fyrirtækisins og ef fyrirtækið færi á hausinn mundi sá kostnaður falla á ríkið. Það yrði þá styrkt af ríkinu þótt búið væri að einkavæða Iðntæknistofnun. Þetta yrði gert með svipuðum hætti og allur sá kostnaður sem fellur í dag til vegna opinbers eftirlits með nýsköpun. Ég vil búa til betra og almennara umhverfi fyrir nýsköpun því að ég hef mikla trú á íslenskri nýsköpun.

Frumvarpið sem hér um ræðir er mjög flókið. Ég var að reyna að átta mig á þessu eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Þar er gert ráð fyrir óskaplegum fjölda stjórna. Mér sýnist að finna þurfi 20 stjórnarmenn til að stunda störf við Byggðasjóð, við Tækniþróunarsjóð, við Íslenskar tæknirannsóknir og við Tryggingarsjóð útflutnings. Alls staðar eru stjórnir eða ráðgjafanefndir. Sumt af þessu, eins og t.d. Tryggingarsjóður útflutnings, er nokkuð sem í flestum löndum er á vegum einkaaðila, að tryggja útflutning, sem getur verið ágætis bisness víðast hvar. En að sjálfsögðu verður ekkert slíkt til þegar menn þurfa að fara í samkeppni við ríkið á því sviði.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en það heyrist væntanlega á mér að ég er ekki hrifinn af þessu frumvarpi. Ég vona að menn hafi skilið það þannig, jafnvel hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem yfirleitt skilur eitthvað annað en ég segi. Ég ætla að taka það sérstaklega fram að ég er á móti þessu fyrirkomulagi og mun ekki geta stutt það. Það er því miður þannig. (SJS: Þetta er skýrt.) Fínt, takk.