133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur ekki dregið ályktun um allan Sjálfstæðisflokkinn af ræðu minni. Við sjálfstæðismenn erum sjálfstæðir en ekki með samtengda heila, eins og mér virðist oft með stjórnarandstöðuna þegar þeir segja „við samfylkingarmenn“ eða „við vinstri grænir“ líkt og þeir hafi allir eina skoðun og eina sál.

Ég held að það þurfi að upplýsast betur hver vilji Sjálfstæðisflokksins er. Ég er alfarið á móti þessu máli og held að menn hefðu getað fundið miklu betri lausn á því. Ég ætla að vona að menn gefist ekki upp við að finna betri lausn á þeim vanda sem steðjar að ráðuneytinu vegna Byggðastofnunar.

Varðandi Impru þá veitir sú stofnun, sá hluti af Iðntæknistofnun, þjónustu fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem oft hafa afskaplega lítið fé aflögu. — Ég er að svara hv. þingmanni ef hann hefur tíma til að hlusta. — Þau fyrirtæki eru yfirleitt ekki aflögufær. Hins vegar gæti maður hugsað sér að þau fengju þessa ráðgjöf lánaða, lánað fjármagn til ráðgjafarinnar sem gjaldfélli þegar fyrirtækið væri orðið fært um að borga. Þangað til væri það jafnvel með ríkisábyrgð sem væri aðstoð við nýsköpun, þótt ég sé ekkert hrifinn af því að ríkið veiti svoleiðis ábyrgðir.

Ég mundi vilja flokka það undir hið sama og eftirlitskostnaðinn sem ýmiss konar fyrirtæki þurfa að borga við stofnun og að sá kostnaður yrði lánaður sömuleiðis. Að sjálfsögðu þyrftum við að lækka kostnað við stofnun fyrirtækja hjá hlutafélagaskrá þannig að þau standi undir kostnaði og jafnvel þann litla kostnað mætti lána líka. Það er nefnilega þannig með nýsköpun að hún á afskaplega erfitt með að borga fé fyrstu árin.