133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni um veiðirétt strandjarða hélt ég einmitt fram alveg gagnstæðu sjónarmiði um daginn. Ég vona að það muni rifjast upp fyrir hv. þingmanni. (SigurjÞ: Það birtist á heimasíðunni.)

Mér er algjörlega hulin ráðgáta hvernig hann getur dregið þá ályktun af orðum mínum í þessu erindi mínu að það verði álitið alvarlegt viðfangsefni að tryggja að vel menntað fólk og framgjarnt fái atvinnutækifæri og lífstækifæri á Íslandi en hverfi ekki af landi brott. Að hann geti mögulega dregið þær ályktanir sem hann dró í síðustu ræðu sinni er mér algjörlega hulin ráðgáta. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé nokkur ástæða til að bregðast illa við því eða vera með nokkur köpuryrði um það því mér er satt að segja alveg hulin ráðgáta hvernig hann getur lesið þetta út.