133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hæstv. ráðherra hefur þó farið yfir málið og fundið rök sem hann telur góð. Vitanlega eru þau til. Þau komu fram akkúrat gagnvart Impru. Að öðru leyti voru nánast allir sem komu á fund nefndarinnar sammála um að vera á móti því að blanda byggðamálunum inn í þessa nýju stofnun.

Ég á eftir að sjá betri rök fyrir því en bara þennan part af málinu. Auðvitað væri hægt að velta þessu atriði fyrir sér á ýmsa vegu, hvort sameining Impru og þróunarsviðsins hjá Byggðastofnun gæti ekki gerst með öðrum hætti en þeim sem þarna er lagður til. Ég verð að segja alveg eins og er að mér sýnist, ef eitthvað er, að þegar því stjórnunarapparati sem er í Byggðastofnun er hent í heilu lagi og þessi leið farin óttast ég að byggðamálin verði hjábarn í þessari nýju stofnun. Það mun verða að skera hana upp strax vegna þess að þar verði ekki tekið eðlilega á málum. Ég óttast að þar verði loppin tök og tortryggni ríkjandi gagnvart þeim forstjóra sem þarf að hafa forustu fyrir öllum aðgerðum sem gera þarf í byggðamálum. Ég tel að það hafi ekki verið útskýrt fyrir okkur í fyrravetur — vonandi verður það betur gert núna — hvernig mál muni ganga fram í þessari stofnun með þeim hætti sem best er þegar leysa á úr málefnum byggðanna.