133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja.

[12:17]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er stundum þannig að þegar menn taka til máls undir liðnum um störf þingsins koma þeir í röðum og ræða svo eitthvað allt annað en málshefjandi ræddi. Ég held að það sé allt í lagi og geri engar athugasemdir við það. Sú hefur orðið raunin núna. Ég held að það sé í það minnsta ekki nein ástæða til að hafa langar umræður um það hvort dótturfyrirtæki sé það sama og að sameina fyrirtæki. Í það minnsta hafa menn fram til þessa oft sameinast dótturfyrirtækjum og talað um það sem sérstakan gjörning enda liggur alveg fyrir að þegar menn fara út í slíkt er um sameiningu að ræða. Í þessu tilfelli hér er um það að ræða að viðkomandi fyrirtæki, Rarik og Orkuveita Vestfjarða, verða þá dótturfyrirtæki Landsvirkjunar.

Hvað sem því líður held ég að það sé ágætt að ræða þessi mál, orkumálin, og hvernig við komum á samkeppni í orkugeiranum. Það er markmið í sjálfu sér. Sömuleiðis held ég að það væri mjög æskilegt að menn mundu ræða hér hluti sem oft fljúga, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, yfirlýsingar um að almenningur greiði fyrir stóriðjukostnaðinn.

Nú getum við haft allar skoðanir á því hvort nóg sé komið af stóriðjuuppbyggingu og hvað menn eiga að gera varðandi uppbyggingu á slíku en það verður ekki rétt, sama hversu oft sem menn segja það, þegar menn halda því fram að almenningur greiði fyrir einhverja stóriðjuuppbyggingu í orkuverum. Það er bara alrangt. Þess vegna eiga menn ekki að fara þá leið.

Hins vegar getur vel verið að menn eigi að skoða hvort nóg sé komið af stóriðju og öðru slíku. Það er allt annað mál. En menn eiga ekki að gera hið ósanna sannað með því að segja það nógu oft, eins og manni finnst sumir þingmenn reyna að gera.