133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

nám á framhaldsskólastigi á suðursvæði Vestfjarða.

199. mál
[13:20]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að aðkoma heimamanna að þessu verkefni verður tryggð, enda hafa þeir haft sérstakt frumkvæði að því að reyna að drífa verkefnið áfram og þeir hafa líka haft forsendur fyrir því. Forsendurnar eru þær að þeir hafa núna starfrækt dreifmenntaverkefnið sem ég kom inn á áðan í svari mínu til hv. þingmanns. Þeir hafa öðlast þekkingu og færni í því að koma hinni nýju tækni inn í grunnskólann á þessu svæði, þ.e. suðurhluta Vestfjarða, þannig að það er allrar athygli vert. Þeir geta nýtt þessa þekkingu núna til að taka málið lengra.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns að slíkt var reynt á sínum tíma, m.a. í samstarfi við Menntaskólann á Ísafirði. Vondar samgöngur er ein ástæðan fyrir því að það verkefni gekk ekki. Á hinn bóginn má segja að tíminn hafi að þessu leyti unnið með okkur því að við höfum þó á þessum árum lagt áherslu á uppbyggingu háhraðanetsins, uppbyggingu fjarnáms og fjarkennslu, þannig að færni okkar Íslendinga í menntakerfinu í dag til að miðla menntun í hinar dreifðu byggðir landsins er mun meiri í dag en hún var fyrir fimm, sex árum. Ekki síst er það að þakka tilkomu Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem gerir okkur líka fært að taka á þessu verkefni á suðurhluta Vestfjarða út frá þeim faglegu forsendum sem við gerum varðandi framhaldsskólanám.

Um leið og við segjum að við viljum miðla menntun, koma menntun til allra þannig að allir hafi sem besta aðkomu að menntun, ekki síst á erfiðari svæðum eins og suðurhluta Vestfjarða, það má líka hugsa sér önnur landsvæði, þá viljum við líka segja að við ætlum ekki að slaka á neinum kröfum varðandi gæði námsins, varðandi hina faglegu kröfur. Þess vegna er þetta samstarf Fjölbrautaskóla Snæfellinga og heimamanna sem að þessu máli hafa komið svo mikilvægt. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig að þessu öllu hefur verið staðið.