133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framhaldsskóli í Rangárvallasýslu.

285. mál
[13:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil hér árétta stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að setja sem meginskilyrði að fólk geti sótt nám að heiman að frá sér daglega til 18 ára aldurs, ella sé reynt að byggja upp nám svo nálægt heimili sem kostur er.

Ég tel að til framtíðar mætti kanna hvort ekki væri rétt að byggja slíkt nám upp sem framhald af núverandi grunnskóla þannig að það myndi eina samfellda heild til 18 ára aldurs, fram að sjálfræðisaldri. Ég vil þó leggja áherslu á að menn standi vörð um Menntaskólann á Laugarvatni og einnig hinn öfluga Framhaldsskóla Suðurlands á Selfossi.

Ég hef ásamt þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt til að farið verði að huga að stofnun háskólaseturs á Selfossi. Á Suðurlandi eru yfir 20 þúsund manns (Forseti hringir.) og það hlýtur að vera eitt af næstu skrefum að horfa til stofnunar háskólaseturs (Forseti hringir.) eða háskóla á Selfossi.