133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framhaldsskóli í Rangárvallasýslu.

285. mál
[13:54]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. menntamálaráðherra áðan að við vildum stefna að greiðari aðgangi að menntun. Ég held að við séum almennt sammála um það í þessum sal.

Á fundi fjárlaganefndar í morgun kom fram hjá skólameisturum sem þar voru að 95% nemenda í hverjum árgangi héldu áfram í framhaldsskólanám. Það er mjög gott og ber að fagna þeirri vinnu sem unnin hefur verið af hálfu menntamálayfirvalda í að auka framboð á námi og gera öllum kleift að halda áfram námi.

Að því er varðar uppbyggingu framhaldsskóla þá liggur fyrir að þörfin er brýnust á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og nágrannabyggðum. Horfur eru á að vísa þurfi nemendum frá vegna þessa á komandi skólaári.

Við eigum að horfa á hvar þörfin er mest og beina aðgerðum okkar að því svæði. Þess vegna tel ég að næsta skref í uppbyggingu framhaldsskóla sé í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu.