133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

réttargeðdeild að Sogni.

162. mál
[14:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Vandi réttargeðdeildarinnar á Sogni í Ölfusi hefur nokkuð verið til umræðu á síðustu vikum. Umræðan varð til vegna þess að senda þurfti einn sjúkling heim áður en dómsúrskurður lá fyrir um lausn hans. Þetta var gert vegna plássleysis og að vista þurfti enn veikari einstakling á deildinni.

Í þetta sinn hefur réttargeðdeildin á Sogni verið yfirfull í meira en ár. Átta einstaklingar hafa verið dæmdir til vistunar þar í þau sjö pláss sem til staðar eru. Áttundi sjúklingurinn hefur því þurft að vistast á herbergi sem ekki er hannað sem hjúkrunarrými.

Réttargeðdeildin á Sogni hefur starfað í mörg ár og með góðum árangri. Sjúklingar hafa verið útskrifaðir, sem fáir reiknuðu víst með þegar deildin var stofnsett. Ef deildin hefur ekki verið full hafa sakhæfir fangar sem eiga við geðræn vandamál að stríða verið vistaðir þar tímabundið og fengið að njóta þeirrar sérhæfðu þjónustu sem þar er. Þetta fyrirkomulag hefur gefið góðan árangur. En núna í rúmt ár hefur ekki verið hægt að veita þessa þjónustu vegna þess að réttargeðdeildin hefur verið yfirfull og auðvitað bitnar það á þjónustu við sakhæfa veika einstaklinga.

Nefndir hafa starfað og skýrslur skrifaðar um þörfina á fjölbreyttari úrræðum fyrir þá sem í veikindum sínum brjóta af sér eða eru taldir hættulegir sér eða umhverfi sínu. Eins og fram kemur í viðtölum við Magnús Skúlason, yfirlækni á Sogni, hafa stjórnvöld verið sinnulaus um þessi málefni, þar sem lítið gerist í framhaldi af öllum úttektunum og skýrslunum. Það er löngu kominn tími til að viðurkenna það mikla og góða starf sem starfsfólk á réttargeðdeildinni á Sogni hefur innt af hendi og þann árangur sem starfið hefur skilað. Nauðsynlegt er að viðurkenna að þörfin fyrir slíka starfsemi er mun meiri nú en á þeim tíma sem deildin var stofnuð og var hún þó ærin. Aukin fíkniefnaneysla og geðræn veikindi í kjölfar þess kalla á fleiri úrræði fyrir veika einstaklinga sem brjóta af sér. Endurskoða þarf lög og reglur um starfsemi réttargeðdeildarinnar, útvíkka og efla starfsemina í takt við auknar þarfir. Við verðum að fá tímasettar áætlanir um uppbyggingu starfseminnar og um endurskoðun laga og reglugerða. Allar úttektir, skýrslur og niðurstöður nefndarstarfs í gegnum árin styðja þá kröfu. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

Hver eru framtíðaráform ráðherra um rekstur og uppbyggingu starfsemi réttargeðdeildarinnar að Sogni í Ölfusi?