133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

réttargeðdeild að Sogni.

162. mál
[15:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 1. þm. Suðurk., Margrét Frímannsdóttir, hefur beint til mín fyrirspurn um framtíðaráform mín um rekstur og uppbyggingu starfsemi réttargeðdeildarinnar að Sogni í Ölfusi. Í byrjun janúar 2006 skipaði forveri minn, Jón Kristjánsson, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjögurra manna starfshóp til að gera úttekt á núverandi húsakynnum réttargeðdeildarinnar á Sogni og vinna að frumathugun á stækkun og endurbótum á stofnuninni. Hópurinn fundaði m.a. með starfsfólki og vistmönnum á Sogni. Auk þess fór hópurinn í kynnisferð til Danmerkur og Noregs til að skoða réttargeðdeildir þar. Nefndin skilaði mér skýrslu um mitt síðasta sumar og nýlega hef ég farið yfir þetta mál með nefndinni. Einnig heimsótti ég stofnunina fyrir fáeinum dögum og ræddi þar bæði við vistmenn og starfsfólk.

Svo ég víki að fyrirspurn hv. þingmanns þá hyggst ég fara að tillögum nefndarinnar um stækkun réttargeðdeildarinnar á Sogni þannig að alls verði á stofnuninni 20 rými, auk bættrar aðstöðu til kennslu, iðjuþjálfunar og fleira. Hér er um mikla framkvæmd að ræða sem að mati nefndarinnar mun kosta milli 600 og 700 millj. kr. Vilji minn er skýr og von mín er sú að það takist að ná breiðri pólitískri samstöðu um mikilvægi þessarar byggingar.

Eins og Alþingi er kunnugt hóf réttargeðdeildin á Sogni í Ölfusi starfsemi sína 1992 og hefur starfað þar farsællega síðan. Alls hafa um 40 sjúklingar verið lagðir inn á þessu tímabili, sumir oftar en einu sinni. Á deildum er gert ráð fyrir sjö rýmum en iðulega hefur þurft að grípa til aukarýmis vegna brýnnar þarfar fyrir aukin pláss.

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðið að beita mér fyrir því að hönnun verksins geti hafist í byrjun næsta árs og frekari fjárveitingar til framkvæmdanna ráðast að sjálfsögðu síðan af ákvörðunum Alþingis en að mínu mati hefur farið fram mjög góð og mikilvæg þjónusta á Sogni og starfsemin hefur verið í höndum mjög dugmikils fólks, sem ég gat rætt við um daginn í heimsókn minni. En það er algerlega ljóst að rétt er að bæta aðstöðu vistmanna og starfsmanna. Það gat maður alveg séð þegar maður gekk þarna um húsið að það er eðlilegt að bæta aðstöðuna.

Ég tel líka mikilvægt að aukið samstarf verði á milli réttargeðdeildarinnar á Sogni og annarra almennra geðdeilda, svo sem geðdeildarinnar á Landspítalanum. Slíkt samstarf þarf að vera eins mikið og mögulegt er. Það eflir þekkingu starfsmanna og styrkir þjónustuna, bæði meðan á meðferð stendur sem og eftir meðferðina að lokinni vistun á Sogni. Rekstur deildar sem þessarar er í eðli sínu þungur og mér er ljóst að það þarf auknar fjárveitingar í framtíðinni samhliða bættu húsnæði. En ég hef fulla trú á því að reksturinn og starfsemin sé í réttum farvegi eins og hún er í dag. Hún er í höndum öflugs hóps starfsmanna og mun verða það áfram. Þessi skoðun mín styrktist enn frekar við hina nýlegu heimsókn sem ég var í þarna um daginn, eins og ég minntist á áðan.

Plássin sem eru sjö eru allt of fá miðað við það sem gengur og gerist í málefnum af þessu tagi. Þegar nefndin heimsótti Danmörku og Noreg er ljóst að miðað við hlutfallstölur þurfa rýmin að vera talsvert fleiri og áætlað er að við þurfum að búa yfir um 20 rýmum í framtíðinni. Það er því eðlilegt að stækka aðstöðuna eða fjölga rýmunum en það þarf líka að bæta húsnæðið. Ég get nefnt sem dæmi að þarna eru salerni frammi á gangi en ekki inni í herbergjum vistmanna og húsið er orðið að nokkru leyti talsvert lúið. En staðsetningin er mjög góð. Ekki þarf að vera með sérstakar girðingar utan við húsið. Menn fá fylgd þegar þeir fara út og þetta er í mjög fallegu umhverfi. Ég held að staðsetningin fyrir uppbygginguna sé mjög góð þar sem hún er núna. Menn geta gengið um í umhverfinu án mikilla vandræða og þessi starfsemi passar ágætlega þar sem hún er núna, þannig að ég styð það að byggt verði upp þar en ekki annars staðar.