133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

réttargeðdeild að Sogni.

162. mál
[15:07]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Á réttargeðdeildinni á Sogni hefur verið unnið mjög farsælt og glæsilegt starf árum saman, það er nokkuð óumdeilt og sú stofnun hefur verið til mikillar fyrirmyndar. Það hefur verið baráttumál um árabil margra velunnara hennar og þeirra sem fyrir henni fara að byggt verði upp við stofnunina þar sem hún er. Þess vegna er að sjálfsögðu ástæða til að fagna því að því sé lýst hér yfir að fara eigi að þeim tillögum að byggja upp verulegan fjölda plássa við réttargeðdeildina á Sogni. En orðunum þurfa að sjálfsögðu að fylgja efndir. Við höfum heyrt svo margar yfirlýsingar um glæsileg áform uppbyggingar í heilbrigðismálum um árabil. Við þekkjum öll viðbygginguna við Heilbrigðisstofnun Suðurlands o.s.frv. Þess vegna er nauðsynlegt að það verði staðfest að þess muni gæta á fjárlögum þessa árs að ráðast eigi í þessar framkvæmdir, að það komi fram að ráðast eigi í þá uppbyggingu, þetta séu ekki háleit framtíðarmarkmið, framtíðartónlist án fjármuna. Það verður að koma fram.