133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi.

156. mál
[15:39]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar segja að það nám sem verið hefur á Reykjum í gegnum áratugina er þar enn. Þar hefur engin breyting orðið á, þ.e. grunnnáminu. Þetta eru 44 nemendur sem er afar lítil eining og þess vegna vakti ég athygli á því að nú eru menn að leita leiða til að efla þennan hluta skólans á mörgum nýjum sviðum sem tengjast uppbyggingu í sveitum og nýsköpun þar. Margt fólk sem haslar sér þar völl til að vera á lögbýlum, sumarhúsum eða heilsárshúsum vill nám í kringum náttúruna. Það er verið að fara yfir þetta allt saman og það hvernig hægt er að styrkja þennan stað og byggja hann upp því að 44 nemenda skóli eða skólaeining er afar lítil eining. Svo tilheyrir hann hinum stóra landbúnaðarháskóla þannig að við þurfum auðvitað að fjölga fólki í námi á Reykjum.

Við höfum líka ætlað að taka ákvörðun um endurbyggingu á lélegum húsum sem á Reykjum eru og þá verður auðvitað að fara fram þarfagreining um það hvað við ætlum að byggja og hvernig. Við byggjum ekki út í loftið. Ég gat þess í upphafi að ég vona að um áramót liggi fyrir sú þarfagreining sem þarf til, bæði hvað húsnæði varðar og námsframboð, hvað þar verður til staðar.

Svo gera menn sér auðvitað grein fyrir því sem hér hefur komið fram, að stjórnendur Reykja óskuðu þess að koma inn í Landbúnaðarháskólann. Það hefur tafið þessa för. Það hefur engu breytt í sjálfu sér, það hefur bara tafið þessa uppbyggingu og breytt aðeins áformum. Skólinn er rekinn og honum stjórnað af rektor. Þar situr háskólaráð með mjög hæfu fólki sem metur þessa þörf (Forseti hringir.) þannig að ég vona að þetta skýrist sem allra fyrst og skil að þetta er vond staða sem þarf að vera skýr sem (Forseti hringir.) allra fyrst.