133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[15:41]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Niðurstöðu rannsókna sem hæstv. félagsmálaráðherra kynnti nýverið er ekki hægt að túlka öðruvísi en sem áfall fyrir jafnréttisbaráttuna. Þessi niðurstaða speglar algera stöðnun og að okkur hefur ekkert miðað á síðustu 12 árum til að eyða kynbundnum launamun. Könnunin staðfesti um 16% kynbundinn launamun og einnig að bil milli þeirra sem hæstu og lægstu tekjurnar hafa hafi aukist en þar kemur fram að hæstu dagvinnulaun með aukagreiðslum á klukkustund eru nærri 26 sinnum hærri en þau lægstu.

Þegar heildarlaun eru skoðuð eru konur með tvo þriðju af launum karla. Þessi könnun segir líka að laun kvenna í þjónustustörfum eru aðeins 55% af launum karla í sömu störfum og hlutur kvenna í stjórnunarstörfum er líka rýrari en karla. Miklu fleiri konur en karlar eru enn fremur á strípuðum launatöxtum. Þetta er köld kveðja, nú þegar 45 ár eru liðin frá því að lög voru sett um launajafnrétti kynjanna, og högg í andlit þeirra sem unnið hafa árum og áratugum saman að því að sporna gegn launamisréttinu. Staðan er því grafalvarleg því það er ekkert annað en mannréttindabrot að greiða konum lægri laun fyrir sömu störf. Það er skylda stjórnvalda og krafa þeirra kvenna sem beittar eru þessu launamisrétti að ríkisvaldið gangi á undan með góðu fordæmi og taki hart á þessum launamun. Það hefur ríkisvaldið ekki gert því að launamunur viðgengst líka hjá ríkinu eins og á opinbera markaðnum í gegnum alls konar fríðindi, bílastyrki og viðbótargreiðslur. Staðreyndin er því sú að ríkið hefur ekki síður brotið jafnréttislög en atvinnurekendur á almenna markaðnum. Það liggur fyrir að viðbótarlaunagreiðslur sem helst koma fram í yfirvinnugreiðslum hjá ríkinu þar sem ekki er krafist vinnuframlags og eru einhliða ákvarðaðar af forstöðumönnum ríkisstofnana renna í miklu meira mæli til karla en kvenna. Á árinu 2002 fengu t.d. konur aðeins 56% af þeirri fjárhæð sem karlar fengu í viðbótarlaun. Aðeins rúmlega 200 konur en 550 karlar fengu á því ári einingagreiðslur og þóknanir, og 445 konur og 702 karlar fengu akstursgreiðslur sem í einhverjum tilvikum eru notaðar sem viðbótarlaun.

Hvað gerir ríkisvaldið í þessu? Nákvæmlega ekki neitt, virðulegi forseti. Síðast þegar ég athugaði málið voru engar samræmdar reglur til í ríkiskerfinu um þessar greiðslur þó að Ríkisendurskoðun hafi kallað eftir þeim, m.a. til að sporna við því að þessar greiðslur gangi í miklu meira mæli til karla en kvenna. Ég verð að segja að viðbrögð hæstv. félagsmálaráðherra eftir að stöðnunarskýrslan var kynnt sem staðfesti að troðið var á mannréttindum kvenna með kynbundnum launamun ollu mér vonbrigðum. Hæstv. félagsmálaráðherra fór bara kurteislega fram á þátttöku stjórnenda fyrirtækja við að minnka launamun kynjanna og hann boðaði samtöl við Samtök atvinnulífsins um þessi mál og vonaðist eftir árangri.

Ég spyr: Hefur ráðherra tekið eftir því sem Runólfur Ágústsson, rektor Háskólans á Bifröst, sagði á málþingi um launajafnrétti, að með sömu þróun og verið hefur undanfarin ár mundi það taka 581 ár að ná fram launajafnrétti kynjanna? Nei, hæstv. ráðherra verður að skilja að það þarf róttækar aðgerðir til að ná árangri í því að jafna launamun kynjanna.

Ráðherra boðaði líka að málið yrði rætt í ríkisstjórn og að frekari aðgerðir væru fyrirhugaðar. En ég spyr: Hvaða aðgerðir, virðulegi forseti, hvaða aðgerðir? Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari því í þessari umræðu. Það er ekki lengur hægt að bíða eftir aðgerðum. Konur hafa beðið í marga áratugi eftir því að sjá árangur í þessu máli. Ég spyr: Er ráðherra reiðubúinn að setja fullan kraft í gerð framkvæmdaáætlunar um aðgerðir til að ná fram launajafnrétti kynjanna sem Alþingi samþykkti árið 2004 að yrði gert?

Ég spyr líka: Er ráðherra reiðubúinn að beita jákvæðri mismunun sem heimil er samkvæmt jafnréttislögum? Er ráðherra tilbúinn að leggja til í ríkisstjórn að í næstu kjarasamningum verði gert sérstakt átak til að leiðrétta launamun kynjanna og til þess lagt sérstakt fjármagn? Það er mikilvægt að það verði gert. Reykjavíkurborg gerði þetta í tíð Reykjavíkurlistans með þeim árangri að kynbundinn launamunur minnkaði um helming. Hæstv. ráðherra á auðvitað að nýta þær leiðir sem árangursríkar hafa reynst.

Ég spyr líka ráðherra: Er hann reiðubúinn til að beita sér fyrir því að afnema launaleyndina? Í þessari rannsókn kom fram að það væri mat margra að launamisréttið þrifist miklu betur í skjóli launaleyndar og margir telja að hún geri stjórnendum auðveldara fyrir að hygla fólki á faglegum grunni. Ég veit að viljann vantar ekki hjá ráðherranum (Forseti hringir.) en það eru aðgerðir sem vantar og ég kalla eftir þeim hjá hæstv. ráðherra.