133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[15:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefði að sjálfsögðu verðskuldað mun lengri tíma en hér er gefinn og það hefði auðvitað átt að vera í verkahring hæstv. forseta að sjá til þess að umræðan hefði fengið lengdan tíma því að hér liggur okkur mikið á hjarta.

Ég verð að segja að mér finnst hæstv. ráðherra fremur linur í yfirlýsingum sínum varðandi þetta mál. Það hef ég reyndar sagt áður. Þó að hann taki sér nú í munn þetta hugtak að hann sé hlynntur róttækum aðgerðum — ég fagna því — þá hef ég ekki mikla trú á að þær róttæku aðgerðir nái fram að ganga eða skipti sköpum því að einu hugmyndirnar sem koma frá hæstv. ráðherra eru nefndir, ráðstefnur, áætlanir, kannanir og þríhliða samráð.

Hæstv. forseti. Síðan 1961 hefur verið bannað með lögum að mismuna fólki á grundvelli kynferðis í launagreiðslum. Það hefur verið gert fram á þennan dag og það er ekkert að lagast, ekkert að lagast á síðustu tólf árum. Þau duga því ekki meðulin sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að reyna að nýta í þessa veru. Hún segist vera öll af vilja gerð en sannleikurinn er sá að það þarf að gera miklu meira. Launamunur kynjanna er birtingarmynd af skakkri valdastöðu í samfélaginu og verður að skoðast í því ljósi. Launamisrétti verður ekki slitið úr samhengi við stöðu kvenna að öðru leyti í samfélaginu. Í samfélagi þar sem það er viðtekið sjónarmið að karlmenn hafi yfirburði umfram konur þrífst launamismunun. Það er því eðlilegt að spurt sé: Hver eru svo tengsl þessa launamismunar og t.d. kynbundins ofbeldis eða kynbundinna stöðuveitinga? Eru t.d. einhver tengsl þarna á milli?

Í sannleika sagt er launamunurinn hluti af valdbeitingu sem konur verða fyrir í þessu samfélagi. Þess vegna verður ríkisstjórnin að taka miklu betur á og fara miklu dýpra í saumana á málunum til að hægt sé að ná hér fram leiðréttingu. Ef vilji er fyrir hendi verður að fara dýpra en hæstv. ráðherra leggur til núna. (Forseti hringir.) Ég bendi hæstv. ráðherra á þingmál stjórnarandstöðunnar sem leggur til róttækar (Forseti hringir.) aðgerðir í þessum málum og krefst þess að hann komi með okkur á vagninn.